Fara yfir á efnisvæði

Sölubann sett á Wonlex krakka snjallúr.

04.01.2019

Neytendastofa kannaði snjallúr í samstarfi við Póst- og fjarskiptastofnun og Persónuvernd.
Í framhaldi af því hefur Neytendastofa bannað sölu og afhendingu á Wonlex krakka snjallúrum. Verslunin Tölvutek hefur haft úrin til sölu. Ástæðuna fyrir banninu má meðal annars rekja til þess að úrin eru ekki CE-merkt. Öll snjallúr eiga að vera CE-merkt en merkið gefur til kynna að varan hafi uppfyllt allar lágmarkskröfur. Snjallúrið var sent til Syndis, ráðgjafafyrirtækis í öryggismálum, til nánari skoðunar. Við þá skoðun komu í ljós alvarlegir öryggisgallar á úrinu en t.d. með aðgangi að skráningarnúmeri úrsins er hægt að hakka sig inn í úrið og þannig fá aðgang að gögnum sem þar eru varðveitt. Einnig kom í ljós að mögulegt var að breyta símanúmerum, hafa samskipti við barn í gegnum snjallúrið, án vitneskju forráðamanns barns, og nálgast upplýsingar um staðsetningu barnsins.

Þá var ekki að finna neina notendaskilmála um hvaða upplýsingum er safnað um barnið, hvernig gögnin eru notuð og hvernig þeim er eytt.

Hægt er að lesa ákvörðun Neytendastofu varðandi Wonlex snjallúrin í heild sinni hér.

TIL BAKA