Fara yfir á efnisvæði

Fyrra verð á útsölu Húsgagnahallarinnar

26.02.2019

Neytendastofa hefur tekið ákvörðun gagnvart Húsgagnahöllinni vegna kynningar fyrirtækisins á lækkuðu verði án þess að geta sýnt fram á raunverulega verðlækkun.

Neytendastofa bárust ábendingar þar sem kvartað var yfir því að sófi hafi ekki verið til sölu á því verði sem var tilgreint sem fyrra verði. Í svörum Húsgagnahallarinnar kom fram að félagið hafi skýrar verklagsreglur um afslætti og tilboð og reglurnar séu gerðar í samræmi við lög, reglur og ákvarðanir Neytendastofu. Mannleg mistök hafi orðið við uppfærslu á vef félagsins sem leiddu til þess að umrædd vara var ranglega merkt sem afsláttarvara.

Í ákvörðun Neytendastofu var vísað til þess að vörur þurfa alltaf að hafa verið seldar á fyrra verði. Fyrirtæki þurfa að geta sýnt fram á að svo með t.d. kvittunum eða gögnum úr bókhaldi að svo hafi verið. Það að mannleg mistök hafi átt sér stað hefur ekki áhrif á það hvort um brot sé að ræða gegn lögum um viðskiptahætti og markaðssetningu. Húsgagnahöllin hafi ekki lagt fram gögn til sönnunar á að umrædd vara hafi verið seld á tilgreindu fyrra verði.

Neytendastofa taldi því rétt að banna Húsgagnahöllinni að viðhafa þessa viðskiptahætti.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA