Fara yfir á efnisvæði

Kvarðanir hitamæla liggja tímabundið niðri

22.03.2019

Fréttamynd

Til að tryggja rekjanleika þeirra kvarðana sem kvörðunarþjónusta Neytendastofu býður upp á er nauðsynlegt að búnaður hennar sé kvarðaður af faggiltum prófunarstofum og/eða landsmælifræðistofnunum. Á fjögurra ára fresti þarf að senda hitamæligrunn Neytendastofu til kvörðunar og fyrr í þessum mánuði var mæligrunnurinn sendur til landsmælifræðistofnunar Bretlands, National Physical Laboratory (NPL). Á meðan mæligrunnurinn er í kvörðun hjá NPL liggja kvarðanir hitamæla niðri þar til mælirinn kemur aftur, en búast má við því að þær hefjist aftur seint í apríl eða í byrjun maí. Kvörðun hitanemans úti á Englandi tekur langan tíma, en hann er prófaður í mörgum náttúrulegum punktum, sem geta verið bræðslumarks-, suðumarks- eða þrífasapunktar frumefna og efnasambanda. Neminn er kvarðaður á ákveðnu sviði sem tryggir það að Neytendastofa geti boðið upp á faggiltar kvarðanir á bilinu -80 °C ... +240 °C fyrir rafmagns- og glerhitamæla.

Fjölmörg fyrirtæki og stofnanir hérlendis þurfa að láta kvarða hitamæla sína enda getur verið um mikla hagsmuni að ræða. Má þar til dæmis nefna lyfjafyrirtæki, matvælafyrirtæki, tilraunastofur og fleiri.

Önnur starfsemi kvörðunarþjónustunnar helst óbreytt á þessum tíma.

TIL BAKA