Fara yfir á efnisvæði

Einkainnflutningur á rafrettum og áfyllingum sem innihalda nikótín

05.04.2019

Neytendastofu hafa borist fjölmargar fyrirspurnir og ábendingar á síðustu dögum frá einstaklingum sem flytja sjálfir inn rafrettur eða áfyllingar fyrir þær sem innihalda nikótín. Er því rétt að skýra þá stöðu sem komin er upp eftir gildistöku nýrra laga um rafrettur og áfyllingar fyrir þær, sem tóku gildi 1. mars 2019.

Einstaklingum er heimilt að flytja inn vörur sem falla undir lögin til eigin nota. Þó verður að gefa upp EC-ID númer, einkum fyrir nikótínvökva og rafrettur. Þær vörur sem skráðar hafa verið innan Evrópu hafa EC-ID númer. Best er að fá viðkomandi seljanda til að skrá EC-ID númer vörunnar á reikninginn, áður en varan er póstlögð. Einnig er hægt að afla EC-ID númersins eftir á hjá seljandanum og eru upplýsingarnar sendar á postur.is/sendagogn.

Ástæðan er sú að í lögunum er gerð krafa um að allar rafrettur og áfyllingar sem fluttar eru inn til landsins séu öruggar. Í því felst meðal annars að rafrettur, hylki eða áfyllingar mega ekki innihalda eftirfarandi aukaefni:

-  Vítamín eða önnur efni sem vekja þá hugmynd að varan hafi í för með sér heilsufarslegan ávinning
-  Koffín, tárín eða önnur aukaefni og örvandi efni sem eru tengd orku og lífsþrótti
-  Efni sem lita gufuna
-  Efni sem auðvelda innöndun eða upptöku nikótíns
-  Efni sem hafa krabbameinsvaldandi, stökkbreytandi eða æxlunarskaðandi eiginleika í því formi sem þeirra er neytt

Ennfremur verða rafrettur og áfyllingar að vera barnheldar og tryggja verður að þær leki ekki og í þeim sé búnaður sem tryggir áfyllingu án leka. Fleiri kröfur eru gerðar til öryggis samkvæmt lögunum og verður að vera unnt að sýna fram á öryggi þeirra með áðurnefndum hætti.

TIL BAKA