Fara yfir á efnisvæði

Átak í öryggi klifurbúnaðar

10.12.2019

kona að klifra klett

Neytendastofa tók þátt í átaksverkefni á öryggi klifurbúnaðar í samstarfi við önnur eftirlitsstjórnvöld á EES svæðinu. Skoðaði Neytendastofa öryggi klifurbúnaðar. Valdar voru fimm vörutegundir sem framleiddar eru sérstaklega til að nota við klifur þ.e. línur, hjálmar, karabínur, klifurbelti og álagsminnkandi útbúnaður sem notaður er við fjallaklifur s.n. „EAS“ sem einnig er nefnt „Via ferrata“. Markmiðið var að hafa vörur frá helstu framleiðendum á þessum markaði auk þess sem valdar voru vörur sem sérstaklega voru markaðssettar sem klifurvörur hjá netverslunum utan Evrópu. Mikill fjöldi vara var skoðaður en af þeim voru 185 vörutegundir sérstaklega valdar til að senda til prófunar.

Niðurstöðurnar komu mjög á óvart.

Byrjað var á því að skoða merkingar og skjölin sem eiga að fylgja klifurvörunum. Kom í ljós að mikið af vörum eru settar á markað án þess að þeim fylgi viðeigandi upplýsingar. Það eykur verulega hættuna á slysum þar sem hætta er á að búnaðurinn sé ekki notaður á rétt. Af 185 vörum voru 102 (55%) sem vantaði eina eða fleiri merkingar og ekki réttar upplýsingar sem fylgdu vörunni. Jafnframt voru 37 vörur (20%) sem stóðust ekki eina eða fleiri prófanir á vörunni. Af þeim voru 14 klifurvörur þess eðlis að við notkun á vörunum stafaði alvarleg hætta.

Við val á prófun var ákveðið að velja þrjár prófunarstofur til að tryggja að um óháðan prófunaraðila væri að ræða sem hefði ekki áður prófað vörur frá sama framleiðanda. Af 30 klifurlínum reyndust sjö ekki vera í lagi og sumar mjög hættulegar. Sem dæmi má nefna eitt atriði sem er prófað þar sem líkt er eftir því að 80 kg manneskja falli. Línan á að þola álagið og halda einstaklingnum uppi. Prófið er endurtekið nokkrum sinnum. Ein línan slitnaði strax við fyrsta fall. Þessi tegund af línu er ekki til í Evrópu heldur var seld á asískri vefsíðu. en hana var hægt að panta til Evrópu. Þrjú klifurbelti rifnuðu við prófanir. Þá brotnuðu fjórar tegundir af hjálmum og tvær tegundir af álagsminnkandi útbúnaði, Via ferrata, reyndust mjög hættulegir við notkun.

Í kjölfar átaksins ákváðu framleiðendur og dreifingaraðilar að lagfæra 53 vörutegundir og bæta merkingar og leiðbeiningar, 48 vörur voru teknar af markaði og 24 vörur hafa verið innkallaðar.

Búið er að skrá að minnsta kosti 11 vörur í Safety Gate (RAPEX), tilkynningakerfi Evrópu fyrir hættulegar vörur, þ.e. tvær línur, þrjú klifurbelti, fjórar tegundir hjálma og tvær tegundir af Via ferrata.

Vart þarf að nefna að það getur bjargað lífum að stoppa sölu á slíkum búnaði sem veitir falskt öryggi.

Ráð fyrir neytendur

    • Veldu klifurbúnað sem hæfir aðstæðum hverju sinni.
    • Keyptu aðeins búnað sem er CE-merktur og þar sem upplýsingarbæklingur frá framleiðanda fylgir.
    • Notaðu alltaf búnaðinn eins og leiðbeiningar framleiðanda segja til um.
    • Athugaðu alltaf búnaðinn áður en þú notar hann. Hentu búnaði sem er slitinn eða skemmdur og endurnýjaðu.     Líf þitt liggur við!


TIL BAKA