Fara yfir á efnisvæði

Seljendur á Íslandi þekkja best rétt neytenda

02.01.2020

Neytendastofa rýndi í skorkort neytendamála sem er fyrir ESB ríkin, Noreg og Ísland fyrir árið 2019 alls 30 ríkjum. En skorkortið er mælitæki sem notað er til að fylgjast með hvernig aðstæður neytenda eru í þessum löndum. Að þessu sinni var gerð könnun hjá bæði neytendum og seljendum á þremur meginþáttum: þekkingu og trausti, samhæfingu og eftirfylgni með lögum um vöruöryggi og neytendarétt, kvörtunum og úrlausn deilumála. Þá er einnig fjallað um framfarir á innri markaði ESB fyrir neytendur.

Það var ánægjuleg fyrir Neytendastofu að á Íslandi er þekking seljenda á réttindum neytenda langbest saman borið við öll önnur ríki Evrópu. Segir það okkur að eftirlit, fræðsla og önnur upplýsingagjöf til fyrirtækja hefur skila sér í góðri þekkingu. Í framhaldi af því kom því ekki á óvart að neytendur á Íslandi telja ekki miklar líkur á að þeir verði fyrir óréttmætum viðskiptaháttum.

Þrátt fyrir að Íslenskir neytendur beri lítið traust til fullyrðinga um náttúruvernd sýnir könnunin að náttúrvernd og fullyrðingar um hana eru farnar að skipta neytendur meira máli. En á Íslandi og öðrum ríkjum í könnuninni kemur fram að meira en helmingur neytenda segir að umhverfissjónarmið hafi áhrif á kauphegðun og að þeir kjósi frekar að kaupa vistvæna vöru.

Traust hérlendra neytenda til opinberra stofnanna er almennt lítið borið saman við önnur ríki. Auk þess kom fram að traust þeirra til úrskurðaraðila eða kærunefnda hefur lækkað verulega undanfarin ár og mælist nú lægst meðal allra 30 ríkjanna. Um áramótin tekur gildi ný löggjöf á Íslandi varðandi úrskurðaraðila og kærunefndir sem hefur nú þegar verið innleidd í öðrum ríkjum Evrópu. Teljum við að við gildistöku þeirrar löggjafar muni traust íslenskra neytenda til úrskurðaraðila og kærunefnda aukast vegna nýrra nefnda og aukinna úrræða.

Svíþjóð, Noregur, Danmörk og Finnland raðast í efstu sæti þegar bornar eru saman niðurstöður allra þriggja þátta. Ísland deilir 13.-14. sæti með Portúgal.

Nálgast má skorkortið hér: https://ec.europa.eu/info/files/consumer-conditions-scoreboard_en


TIL BAKA