Fara yfir á efnisvæði

Neytendastofa kannaði barnarúm

13.01.2020

Fréttamynd

Neytendastofa fylgdi eftir átaksverkefni sem gert var árið 2015 þar sem skoðað var öryggi barnarimlarúma og barnaferðarúma. Verkefnið var evrópskt samstarfsverkefni.

Foreldar verða að geta treyst því að rúm sem valin eru fyrir börn séu örugg. Rúm eru einn af fáum stöðum þar sem börn eiga að geta verið skilin eftir án eftirlits í einhvern tíma. Niðurstöður úr átakinu 2015 kom ekki vel út þar sem 80% rúmanna voru talin hættuleg börnum og helmingur þeirra voru svo stórhættuleg að þau voru innkölluð. Í kjölfarið var unnið að því að bæta og herða kröfur um öryggi rimla- og ferðarúma. Því taldi Neytendastofa nauðsynlegt að fylgja verkefninu eftir og athuga hvort skýrari kröfur til framleiðslunnar skiluðu sér í öruggari barnarimla- og ferðarúmum.

Fjöldi barnarúma var skoðaður og voru 23 barnarimla- og ferðarúm send til prófunar. Niðurstöðurnar sýndu að 87% þeirra stóðust ekki lágmarkskröfur um öryggi. Í flestum tilfellum eða 74% vantaði mikilvægar merkingar eða upplýsingar með rúmunum.

Einnig komu í ljós hönnunargallar á rúmunum þar sem 30% af þeim voru með of stór bil eða op þar sem hætta var á að barn gæti fest sig og slasast alvarlega. Til að mynda má op eða bil á milli rimla á rúmum ekki vera stærra en 6,5 cm. Ef það er stærra þá er hætta á slysum þar sem höfuð barnsins getur fests. Þá má bil á milli hliðar og dýnu aldrei verða meira en 3 cm. Ef bilið er stærra gæti höfuð barns farið á milli dýnu og rúms þannig að hætta verður á köfnun.

Varðandi merkingar þá vantaði oftast merkingar um að ekki mætti bæta við eða breyta dýnu í ferðarúmum vegna köfnunarhættu. Þar sem dýnur á ferðarúmum eru oft þunnar þá kaupa forráðamenn oft auka dýnu í rúmið. Venjulega er þykktin á dýnu í ferðarúmi um 10 mm til 20 mm. Við skoðun á rúmunum kom í ljós að í einhverjum tilvikum höfðu framleiðendur sett merkingar með rúmunum þar sem þeir hvöttu til að bæta við auka dýnu. Við eftirlit Neytendastofu kom fyrir að afgreiðslufólk benti á að það fylgdi ekki dýna með rúminu eða fólki var boðið að kaupa aukadýnu.

Með því að setja aðra dýnu í ferðarúm þá aukast líkurnar á köfnun. Hliðar ferðarúma eru oftast mjúkar, úr teygjanlegu efni og því hreyfanlegar. Því getur barnið auðveldlega oltið á milli dýnu og hliðar. Til að koma í veg fyrir það eiga að vera viðvaranir á rúminu um að aðeins eigi að nota dýnuna sem framleidd var fyrir rúmið og fylgir því. Það á alls ekki að bæta við annarri dýnu ofan á rúmbotninn eða setja nýja dýnu í rúmið vegna köfnunarhættu.

Neytendastofa telur mikilvægt að ferðarúm séu með textílmerkingum svo að kaupendur séu upplýstir um hvort efnið í rúmunum sé úr bómull eða pólýester. Ferðarúm voru áður fyrr frekar gerð úr bómull en nú eru þau yfirleitt úr pólýester m.a. þar sem auðveldara er að þrífa þau, þau eru slitsterkara og þola vel að vera teygð til. Helsti ókostur þess er þó er að pólýester andar ekki líkt og bómull. Á íslenskum markaði og voru ferðarúmin öll úr pólýester nema eitt sem var gert úr 100% bómull.

Niðurstöður prófananna voru sendar til framleiðenda. Þeir framleiðendur sem Neytendastofa átti samskiptum við ætla að lagfæra merkingar og hafa í huga muninn á efninu í rúmunum.

Ráð fyrir neytendur:

• Þegar notaðar eru vörur eins og hreiður, bólstraður stuðningur, laus rúmföt, stuðkantar, koddar eða önnur mjúk efni sem geta komið nálægt andliti barns þá geta þau valdið köfnun og/eða ofhitnun. Forðast á einnig að nota bólstraðan stuðning sem heldur barninu í einni svefnstöðu.

• Aldrei að kaupa auka dýnu í barnarúm.

• Láttu barnið sofa á flötu undirlagi. Ekki láta þau sofa í 10-30 gráðu halla eins og í svefnvöggu eða svefnstól, en þegar hafa nokkrar tegundir verið innkallaðar af Amazon, Ebay og ýmsar minni sölusíður hafa hætt sölu á slíkum vörum.


TIL BAKA