Fara yfir á efnisvæði

Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa tekur til starfa.

20.03.2020

Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hefur tekið til starfa, en um er að ræða sjálfstæða úrskurðarnefnd sem úrskurðar í ágreiningsmálum milli neytenda og seljenda um flestar gerðir samninga um kaup á vöru og þjónustu. Markmið nefndarinnar er að tryggja neytendum aðgang að skilvirkri og faglegri málsmeðferð við úrlausn ágreinings utan dómstóla. Neytendur geta sent inn kvörtun til nefndarinnar á vefnum kvth.is og í gegnum Ísland.is.

„Þetta er mikil réttarbót fyrir neytendur sem hingað til hafa ekki haft önnur úrræði í slíkum málum en dómsstóla, sem getur reynst afar kostnaðarsamt og tímafrekt. Neytendur geta núna sent rafræna kvörtun til nefndarinnar og nýtt sér kosti rafrænnar stjórnsýslu á faglegan, öruggan og skilvirkan hátt“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra.

Ráðherra hefur skipað kærunefnd sem þegar hefur tekið til starfa. Nefndin er hýst hjá Neytendastofu.

Víðtæk lögsaga og bindandi úrskurðir.

Nefndin hefur víðtæka lögsögu og getur tekið fyrir mál sem heyra ekki undir aðrar lögbundnar nefndir eða nefndir á vegum neytendasamtaka og starfsgreinasamtaka sem hafa hlotið viðurkenningu ráðherra. Unnt er að bera ágreining undir nefndina þegar sættir hafa verið reyndar milli aðila en þær ekki tekist. Úrskurður nefndarinnar er bindandi nema seljandi tilkynni innan 30 daga að hann uni ekki úrskurðinum. Nefndin birtir skrá yfir seljendur sem hafa sent slíka tilkynningu.

„Þetta er eitt stærsta skref á sviði neytendaverndar sem hefur verið stigið á Íslandi að mínu mati. Ný lög um úrskurðaraðila utan dómstóla tryggja neytendum rétt til að leita úrlausnar á ódýran hátt hafi komið upp ágreiningur í viðskiptum þeirra við seljendur sem ekki hefur verið leyst beint úr með samkomulagi milli seljanda og neytanda. Mikilvægt er þessi þjónusta sé skilvirk og hröð þannig að neytendur fái fljótt úrlausn hvort þeim beri að fá bætur vegna vanefnda seljanda. Það verður nú enn betur tryggt með nýrri rafrænni þjónustugátt sem Neytendastofa hefur undirbúið og er opin til almennrar notkunar.“ segir Tryggvi Axelsson, forstjóri Neytendastofu. 

Allar nánari upplýsingar um málsmeðferð og störf nefndarinnar má nálgast hjá Neytendastofu og á vefsíðu nefndarinnar kvth.is.


TIL BAKA