Fara yfir á efnisvæði

Leiðbeiningar Neytendastofu um inneignarnótur og breytingar pakkaferða vegna útbreiðslu kórónaveirunnar.

23.03.2020

Áhrif kórónaveirunnar á veitingu ferðatengdrar þjónustu eru nú orðin veruleg. Stjórnvöld víðs vegar um heim hafa gripið til margvíslegra aðgerða til að hefta útbreiðslu veirunnar sem hafa m.a. falist í ferðabanni þar sem ferðamönnum er ýmist meinuð koma eða íbúum meinað að ferðast frá sínum heimalöndum. Þessar ráðstafanir hafa haft afgerandi áhrif á samgöngur og aðra ferðatengda þjónustu.

Um pakkaferðir gilda lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun nr. 95/2018. Samkvæmt lögunum skal ferðaskipuleggjandi eða smásali endurgreiða ferðamanni þær greiðslur sem hann hefur greitt vegna pakkaferðar sem er aflýst eða afpöntuð vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna sem hafa veruleg áhrif á framkvæmd pakkaferðar eða flutning farþega til ákvörðunarstaðar. Endurgreitt skal innan 14 daga frá aflýsingu eða afpöntun pakkaferðar af framangreindum ástæðum og samkvæmt tilkynningum hlutaðeigandi stjórnvalda.

Í ljósi þeirra fordæmalausu aðstæðna sem uppi eru vegna útbreiðslu kórónaveirunnar hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið beint því til ferðamanna að huga vel að því hvort þeir geti tekið við inneignarnótu fyrir pakkaferð í stað endurgreiðslu. Fréttatilkynningu ráðuneytisins má nálgast hér: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2020/03/23/Ahrif-COVID-19-a-pakkaferdir/

Neytendastofa telur brýnt að góðir viðskiptahættir séu viðhafðir við útgáfu inneignarnóta og tryggt að þær falli undir pakkaferðatryggingar skipuleggjanda.

Neytendastofa vill koma á framfæri sjónarmiðum vegna útgáfu inneignarnótu til að auðvelda fyrirtækjum að viðhafa góða viðskiptahætti við útgáfu þeirra. Um leið geta sjónarmiðin auðveldað ferðamönnum að taka upplýsta ákvörðun um þennan valkost og halda rétti sínum til lögboðinnar pakkaferðatryggingar skipuleggjanda kjósi þeir að taka við inneignarnótum.

Sjónarmið við útgáfu COVID ferðainneignarnótu:

    1. Útgáfa COVID inneignarnótu er valkostur og kemur til viðbótar við lögbundinn endurgreiðslurétt ferðamanna en ekki í staðinn fyrir hann. Við upplýsingagjöf til ferðmanna og í skilmálum ferðaþjónustufyrirtækja ætti ekki að kveða á um eða gefa í skyn að COVID inneignarnótur komi í stað lögbundins endurgreiðsluréttar.

    2. Inneignarnóta ætti að bera með sér að hún sé til frestunar á pakkaferð vegna útbreiðslu kórónaveirunnar/COVID-19 sjúkdómsins.

    3. Inneignarnótan ætti að minnsta kosti að hljóða upp á pakkaferð hjá fyrirtækinu eins og hún er skilgreind í lögum.

    4. Inneignarnótan ætti að hljóða að lágmarki upp á þá fjárhæð sem ferðamaður greiddi fyrir pakkaferðina.

    5. Á inneignarnótunni ætti að koma fram gildistími hennar. Eðlilegt er að miða við fjögur ár sem er fyrningarfrestur almennra krafna. Stuttur gildistími getur falið í sér ósanngjarna samningsskilmála og er háð mati Neytendastofu komi slík mál til ákvörðunar hjá stofnuninni.

    6. Á inneignarnótunni ætti að koma fram að ferðamanni sé innan gildistíma ávallt heimilt að krefjast endurgreiðslu ef hann hættir við að nota COVID inneignarnótuna.

TIL BAKA