Fara yfir á efnisvæði

Neytendastofa innkallar leikfangakörfu og bannar sölu

31.03.2020

Neytendastofu barst ábending um að vefverslun Mosibutik.is hefði til sölu „Gersemi körfu“ sem ekki var CE-merkt en seld sem leikfang. Í körfunni mátti finna raksápubursta, álvír, sigti, tréskífur, plastkeðju ásamt fleiri smáhlutum. Einnig barst ábending um sölu á snudduböndum sem ekki væru í lagi.

Mosibutik gat ekki sýnt fram á að fimm tegundir snuddubanda undir heitinu „Snudduband“ og tvær tegundir snuddubanda undir heitinu „Snuddubönd 3 saman“ uppfylltu lágmarkskröfur og var sala þeirra því bönnuð. Einnig var Mosibutik bannað að selja og gert að innkalla leikfangakörfuna „Gersemi karfa“ þar sem hlutir í henni gætu reynst hættulegir ungum börnum.

Leikfangakörfunni er unnt að skila til mosibutik gegn inneign í vefverslun eða endurgreiðslu. Hafa má samband við verslunina með því að senda tölvupóst á netfangið mosibutik@mosibutik.is.

Hægt er að lesa ákvörðun Neytendastofu hér.


TIL BAKA