Fara yfir á efnisvæði

Fullyrðingar FEEL ICELAND

12.06.2020

Neytendastofu barst kvörtun frá Protis yfir fullyrðingum og upplýsingum á umbúðum og í markaðssetningu Ankra, rekstraraðila FEEL ICELAND, á Amino Marine Collagen Powder. Snéri kvörtunin að því að með villandi hætti væri gefið til kynna að um íslenska vöru væri að ræða þegar raunin væri sú að aðvinnsla færi fram erlendis.

Í svörum Ankra var því hafnað að um villandi eða óréttmæta viðskiptahætti væri að ræða. Kollagenið, sem fengið sé úr íslensku fiskiroði, fái ákveðna aðvinnslu erlendis en allt annað ferli framleiðslunnar fari fram á Íslandi. Þá fari hönnun varanna, þróun þeirra, uppskriftir, greining, gerð umbúða og stjórnun fram á Íslandi. Um sé að ræða íslenska vöru sem hafi íslenskt upprunavottorð.

Niðurstaða Neytendastofu er sú að merkingum á vörunni sé ábótavant. Þó fiskiroðið sé íslenskt og hluti framleiðslu lokaafurðarinnar fari fram hérlendis liggi fyrir að vinnsla kollagensins úr fiskiroðinu sé gerð erlendis. Upplýsingar og merkingar á vörunni séu til þess fallnar að telja neytendum trú um að framleiðsla vörunnar fari í heild sinni fram hér á landi. Það sé mat Neytendastofu að upplýsingarnar séu til þess fallnar að hafa áhrif á fjárhagslega hagsmuni neytenda og því séu viðskiptahættirnir villandi gagnvart neytendum.


Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér

TIL BAKA