Fara yfir á efnisvæði

Automatic bönnuð notkun auðkennisins FILTERTÆKNI

13.08.2020

Neytendastofu barst erindi Filtertækni ehf. þar sem kvartað var yfir að fyrirtækið Automatic ehf. notaði auðkennið FILTERTÆKNI sem leitarorð í símaskrá Já.is. Í svari Automatic var því hafnað að fyrirtækin tvö störfuðu á sama markaði og talið eðlilegt að fyrirtæki sem sérhæfi sig í síum styðjist við leitarorðið „filtertækni“ á Já.is.

Neytendastofa taldi starfsemi fyrirtækjanna vera nægilega líka þannig að nokkur skörun væri á milli markhópa þeirra. Þá taldi Neytendastofa að orðið væri ekki almennt og lýsandi fyrir starfsemi fyrirtækis sem sérhæfir sig í síum. Var vísað til þess að orðið væri samsett úr enska orðinu „filter“ og íslenska orðinu „tækni“ og að orðið væri ekki hluti af almennri málvenju hér á landi. Þar að auki væri auðkennið skráð firmaheiti Filtertækni ehf. og hafði Automatic ekki notað orðið í rekstri sínum með öðru móti en sem leitarorð á heimasíðu Já.is. Taldi Neytendastofa þannig að Automatic væri að nota auðkenni sem það hafði ekki tilkall til sem leitt gæti til þess að villst yrði á fyrirtækjunum. Automatic var því bönnuð notkun auðkennisins sem leitarorð í símaskrá Já.is.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.


TIL BAKA