Fara yfir á efnisvæði

Sala á rafrettum á netinu óviðunandi

27.08.2020

Neytendastofa gerði könnun á sölu rafrettna hjá átta vefsíðum. Samhliða því skoðaði Neytendastofa hvort veittar væru upplýsingar um þjónustuveitanda og rétt neytenda til að falla frá samningi. Vefsíðurnar reyndust allar óviðundandi.

Könnun Neytendastofu leiddi í ljós að til sölu voru 652 ólöglegar vörur. Auk þess reyndust allar síðurnar með ófullnægjandi upplýsingar um rétt neytenda í fjarsölu. Ýmist vantaði upplýsingar eða veittar voru rangar upplýsingar um 14 daga skilarétt á vörum sem keyptar eru í fjarsölu. Þá veitti aðeins ein vefsíða nægar upplýsingar um þjónustuveitanda svo sem kennitölu, heimilisfang, netfang og virðisaukaskattsnúmer.
Áður en sala á rafrettum eða áfyllingum fyrir rafrettur er leyfð þarf að senda Neytendastofu tilkynningu um fyrirhugaða sölu. Tilkynningum þurfa að fylgja gögn sem sýna fram á öryggi varanna eins og t.d. innihaldslýsing og útblástursskýrslur. Það má t.d. ekki selja á Íslandi vökva sem innihalda vítamín eða koffín. Umbúðir mega ekki höfða til barna og verða að vera barnheldar. Tilkynningar varðandi rafrettur og áfyllingar sem Neytendastofa hefur samþykkt eru birtar á heimasíðu Neytendastofu.

Neytendastofa hvetur neytendur til að vera á verði og koma ábendingum um rafrettur til skila í gegnum Mínar síður sem finna má á vefslóðinni www.neytendastofa.is


TIL BAKA