Fara yfir á efnisvæði

Ófullnægjandi andlitsgrímur

16.10.2020

Fréttamynd

Neytendastofa fær fjölda ábendinga og fyrirspurna um andlitsgrímur á hverjum degi. Nokkrar ábendingar og kassi af grímum bárust vegna vöru sem merkt er fyrirtækinu 3M Chile S.A. Grímurnar eru gerðar úr tveimur gegnsæjum lögum sem sía lítið sem ekkert. Neytendastofa hefur ekki upplýsingar um hver er dreifingaraðili vörunnar hér á landi eða í hvaða verslunum þær er seldar.

Neytendastofa varar neytendur við notkun grímnanna þar sem þær veita litla sem enga vörn. Stofnunin biður einnig neytendur sem hafa upplýsingar um sölustaði eða dreifingaraðila grímnanna að senda inn ábendingu á vefsíðu stofnunarinnar (www.neytendastofa.is).

Neytendastofa hefur á síðustu mánuðum skoðað margar tegundir af grímum. Dreifingaraðilar hafa í flestum tilfellum brugðist vel við ábendingum stofnunarinnar og ýmist tekið þær af markaði eða lagfært villandi upplýsingar á pakkningum. Neytendastofa vill benda bæði neytendum og dreifingaraðilum á að það eru til þrjár tegundir af grímum, tvær gerðir eru CE merktar: svokallaðar sjúkrahúsgrímur og PPE grímur eða persónuhlíf. Ef þessar grímur eru seldar neytendum þá verða þær að vera CE merktar, en merkið segir til um að vörurnar uppfylli lágmarkskröfur um öryggi. Þriðja tegundin fór á markað á þessu ári sem svar við skorti á grímum og hefur verið nefnd samfélagsgrímur. Þær veita ekki sömu vörn og CE merktar grímur og eiga því ekki að vera notaðar innan heilbrigðisgeirans.

TIL BAKA