Fara yfir á efnisvæði

Samanburðarauglýsingar Múrbúðarinnar

24.02.2021

Neytendastofu barst kvörtun frá Húsasmiðjunni hf. vegna auglýsinga Múrbúðarinnar ehf. Kvörtun Húsasmiðjunnar laut að auglýsingum sem fram komu á fésbókarsíðu Múrbúðarinnar þar sem Colorex málning var auglýst með 20% afslætti fram að páskum. Í auglýsingunni var gerður verðsamanburður á Colorex málningu frá Múrbúðinni og Lady 10 málningu frá Húsasmiðjunni og þau verð borin saman við verð á málningu erlendis. Var það mat Húsasmiðjunnar að auglýsingar Múrbúðarinnar og þær fullyrðingar sem þar komu fram væru villandi og að um ólögmætar samanburðarauglýsingar væri að ræða.

Í svörum Múrbúðarinnar kom fram að kvörtun Húsasmiðjunnar væri hafnað og að það væri mat félagsins að auglýsingarnar uppfylltu öll skilyrði laga, bæði um samanburð á verði hér á landi og erlendis.

Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að um villandi samanburðarauglýsingar væri að ræða. Verð á málningu beggja verslana hér á landi væri borið saman við verð á málningu erlendis með almennum hætti án skýringa og án þess að fram kæmi hvaða lönd hafi verið átt við með „í útlöndum“. Af gögnum málsins var ráðið að borið væri saman verð í mismunandi löndum sem talið var villandi gagnvart neytendum.

Með ákvörðuninni var birting auglýsinganna bönnuð og þeim fyrirmælum beint til Múrbúðarinnar að fjarlægja auglýsingarnar þar sem þeim hafði verið komið á framfæri.

Ákvörðunina má lesa hér.

TIL BAKA