Fara yfir á efnisvæði

Rafrettueftirlit í 42 matvöruverslunum og bensínstöðvum

02.03.2021

Neytendastofa fór í 42 matvöruverslanir og bensínstöðvar í febrúar þar sem athugað var hvort seldar væru ólöglegar rafrettur og áfyllingar og hvort slíkar vörur væru sýnilegar viðskiptavinum. Rafrettur og áfyllingar mega ekki vera sýnilegar viðskiptavinum verslunar og þurfa að vera geymdar í t.d. lokuðum skáp eða skúffu. Athugaðar voru um 60 tegundir og reyndust þær allar vera í lagi. En aftur á móti kom í ljós að í 48% verslananna voru rafrettur og áfyllingar sýnilegar.

Í öllum tilvikum brugðust söluaðilar vel við athugasemdum Neytendastofu og komu rafrettum fyrir þannig að þær væru ekki sjáanlegar að viðstöddum fulltrúum stofnunarinnar.

Sérverslanir, sem eingöngu selja rafrettur og rafrettuvöka, mega hafa vörur sýnilegar þegar inn í verslun er komið en slíkar verslanir þurfa að tryggja að vörur sjáist ekki í gegnum rúður eða hurðar.

Hægt er að senda ábendingar um sýnileika rafrettna í gegnum ábendingarhnapp á vefsíðu Neytendastofu.

TIL BAKA