Fara yfir á efnisvæði

Auðkennið JÚMBÓ

22.03.2021

Neytendastofu barst kvörtun frá Veganmat ehf. og Oatly AB þar sem kvartað var yfir notkun Sóma ehf. á auðkenninu JÚMBÓ í nýlega breyttri mynd. Í kvörtuninni er rakið að Veganmatur og Oatly telji JÚMBÓ svo líkt auðkennunum JÖMM og OATLY sameiginlega að neytendur gætu ruglast á þeim. Töldu Veganmatur og Oatly jafnframt að viðskiptahættir Sóma væru til þess fallnir að hafa áhrif á ákvörðun neytenda um viðskipti og raska verulega fjárahagslegri hegðun þeirra. Sómi hafnaði þessum athugasemdum og vísaði m.a. til þess að takmörkuð samkeppni væri milli þeirra. Þá nytu Veganmatur og Oatly ekki sameiginlegra hagsmuna og því væri ekki hægt að fjalla um líkindi JÚMBÓ við JÖMM og OATLY í sameiningu. Þegar JÚMBÓ væri borið saman við JÖMM og OATLY í sitthvoru lagi væru líkindin ekki til þess fallin að neytendur ruglist á þeim.

Neytendastofa taldi að meta bæri líkindi auðkennisins JÚMBÓ og auðkennanna JÖMM og OATLY í sitthvoru lagi, þar sem ekki sé lagagrundvöllur fyrir því að meta líkindi auðkennis við tvö auðkenni sameiginlega sem eru í eigu tveggja fyrirtækja. Þá taldi stofnunin að Oatly og Sómi væru ekki keppinautar á markaði en að ákveðin skörun væri hins vegar á starfsemi Veganmatar og Sóma. Eftir að hafa framkvæmt heildarmat á útliti allra auðkennanna taldi Neytendastofa að slík líkindi væru hvorki með JÚMBÓ og JÖMM, né JÚMBÓ og OATLY að hætta væri á því að neytendur rugluðust á þeim. Þá féllst stofnunin ekki á að notkun Sóma á auðkenninu JÚMBÓ fæli í sér óréttmæta viðskiptahætti gagnvart Vegnmat og Oatly eða að notkunin væri villandi gagnvart neytendum.

Niðurstaða Neytendastofu var sú að ekki væri tilefni til aðgerða stofnunarinnar í málinu.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA