Fara yfir á efnisvæði

Líftækni innkallar dr. Frei andlitsgrímur

06.04.2021

Fréttamynd

Neytendastofu hefur borist tilkynning frá Líftækni ehf. um innköllun á andlitsgrímum sem markaðssettar voru sem CE merktar persónuhlífar framleiddar af fyrirtækinu Medtex Swiss ltd. Grímurnar hafa verið seldar undir vörumerkinu dr.Frei Protect og eru af gerðinni FFP2, sjá meðfylgjandi myndir. Andlitsgrímurnar voru fluttar inn af Líftækni ehf. og seldar í apótekum Lyfju, Lyf og heilsu, Apótekarans, Lyfjavals og Lyfjavers.

Neytendastofa sendi nokkur eintök af dr. Frei grímum til prófunar hjá löggildri prófunarstofu í Danmörku sem hluti af samstarfsverkefni eftirlitsstjórnvalda á sviði vöruöryggis innan Evrópu. Síunargeta grímnanna var prófuð ásamt því hversu vel grímurnar falla að mismunandi andlitsfalli fólks.

Niðurstöður prófunarinnar sýndu að miklir annmarkar væru á síunargetu umræddra gríma, þar sem gegnumflæði úðaefnis grímnanna má ekki fara yfir 6%. Samkvæmt prófun á grímunum reyndist síunargeta dr. Frei andlitsgríma vera nær engin. Með hliðsjón af niðurstöðum prófunar er hvorki heimilt að selja grímurnar sem persónuhlífar né CE merkja þær. Gríman veitir falskt öryggi.

Þegar prófað var hversu vel grímurnar falla að mismunandi andlitsföllum komu í ljós annmarkar. Grímurnar sem voru af stærðinni S/M pössuðu aðeins á eina af níu andlitsstærðum og í þeirri prófun veitti hún takmarkaða einangrun.

Eftir að Líftækni voru kynntar niðurstöður prófunarinnar ákvað Líftækni strax að stöðva alla sölu á grímunum og að innkalla þær af markaði. Hafa tilkynningar þess efnis verið sendar til framangreindra apóteka.

Neytendastofa bendir þeim sem eiga slíkar grímur að hætta notkun þeirra strax og skila þeim á þann sölustað sem þær voru keyptar eða henda þeim.


TIL BAKA