Fara yfir á efnisvæði

Verðlækkun Deal happy villandi

08.04.2021

Neytendastofu bárust ábendingar frá neytendum vegna tilboða sem auglýst voru á vefsíðunni dealhappy.is. Í ábendingunum var kvartað yfir að á vefsíðunni væru vörur auglýstar með afslætti þrátt fyrir að hafa aldrei verið til sölu á auglýstu fyrra verði enda hefði vefsíðan fyrst verið tekin í notkun skömmu áður en tilboð voru auglýst. Við skoðun Neytendastofu á vefsíðunni kom einnig í ljós að klukka sem taldi niður tíma þar til tilboði lyki virtist alltaf hefja sömu niðurtalningu þegar farið væri inn á vefsíðuna.

Í svörum Deal happy kom fram að mistök hafi verið gerð við uppsetningu síðunnar. Mistökin fólust m.a. í því að vörur væru merktar á útsölu og að sjálfkrafa hafi verið merktur 1.000 kr. afsláttur af öllum vörum.

Komst Neytendastofa að þeirri niðurstöðu að viðskiptahættir Deal happy væru ekki í lagi. Neytendum væru gefnar rangar upplýsingar um verðlækkun á vörunum og reynt væri að hafa áhrif á ákvörðun þeirra um viðskipti með villandi niðurteljara á klukku. Neytendastofa taldi klukkuna falla undir viðskiptahætti sem teljast undir öllum kringumstæðum óréttmætir þar sem reynt væri að fá neytendur til að taka skyndiákvörðun með því að halda því ranglega fram að vara verði aðeins fáanleg á lækkaða verðinu í stuttan tíma.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.


TIL BAKA