Fara yfir á efnisvæði

Pínupons innkallar Regnboga Nagleikfang

16.06.2021

Fréttamynd

Neytendastofu hefur borist tilkynningin frá vefversluninni pinupons.is um innköllun á vörunni “Regnboga Nagleikfang”, í öllum seldum litum, sem markaðsett var sem leikfang og selt á tímabilinu 20. desember 2020 - 24. febrúar 2021. Neytendastofa fékk ábendingu um að verslunin hafi verið að selja nagleikföng sem væru ekki CE-merkt og gætu því verið hættuleg börnum. Í kjölfarið óskaði stofnunin eftir gögnum sem sýndu fram á að leikfangið uppfyllti lágmarkskröfur um öryggi. Engin slík gögn bárust enda varan ekki prófuð á grundvelli viðeigandi staðla og kann hún því að vera hættuleg börnum sé hún notuð við leik.

Ríkar kröfur eru gerðar til framleiðslu leikfanga, s.s. í tengslum við efnisinnihald, köfnunarhættu, eldfimi o.fl. Með því að setja CE merkið á leikfang er framleiðandin að segja að varan uppfyllir allar kröfur sem eiga við um viðkomandi leikfang.

Eftir samtal við Neytendastofu ákvað Pínupons að innkalla þær vörur sem höfðu verið seldar sem leikföng. Í kjölfarið var markaðssetning vörunnar leiðrétt þannig að varan er nú seld sem hangandi veggskraut.

Neytendastofa bendir þeim sem keyptu “Regnboga Nagleikfang” á framangreindru tímabili að hætta notkun vörunnar sem leikfang og skila vörunni til Pínupons gegn endurgreiðslu vörunnar.

TIL BAKA