Fara yfir á efnisvæði

Sölu- og afhendingarbann á grímubúninga hjá Hagkaup

15.09.2021

FréttamyndNeytendastofa hefur bannað sölu og afhendingu á grímubúningum frá framleiðandanum Disguise Inc. sem seldir voru í verslunum Hagkaups án CE-merkis. Á meðfylgjandi myndum eru umræddir búningar, en hið sama á við um aðra búninga frá sama framleiðanda sem bera ekki CE-merkið.

Í kjölfar ábendingar sem barst Neytendastofu sótti fulltrúi stofnunarinnar fjóra grímubúninga til skoðunar. Grímubúningar teljast leikföng og verða að uppfylla viðeigandi öryggiskröfur auk þess að bera CE-merki. Þar sem skoðun á umræddum búningum leiddi í ljós að enginn þeirra hafði CE-merki taldi Neytendastofa nauðsynlegt að setja tímabundið bann við sölu og afhendingu þeirra ásamt því að biðja um gögn sem sýndu fram á öryggi búninganna. Engin gögn bárust.

Í ljósi þess að engin gögn bárust var það endanleg niðurstaða Neytendastofu að búningar frá framleiðandanum Disguise Inc., sem bera ekki CE-merkið, séu ekki örugg vara. Vill Neytendastofa ítreka að óheimilt er að markaðssetja leikföng hér á landi án þess að þau beri CE-merkið. Merkið þýðir að varan uppfyllir öryggiskröfur og hefur ýmist verið prófuð miðað við ætlaða notkun og þann aldurshóp sem varan er framleidd fyrir. Ef varan er í lagi og uppfyllir allar viðeigandi kröfur ásamt því að allar merkingar og leiðbeiningar eru í lagi má setja CE-merkið á vöruna.

Ákvörðunina má lesa hér.

TIL BAKA