Fara yfir á efnisvæði

Innköllun og bann við sölu á leikfangalest hjá Kids Coolshop

30.09.2021

Fréttamynd

Neytendastofa hefur fyrirskipað innköllun og bannað sölu og afhendingu á leikfangalestarinnar „Wooden stacking train set“, frá framleiðandanum Vilac, sem var seld í verslunum Kids Coolship Iceland ehf.

Neytendastofa fékk ábendingu um að öxull og hnoðbolti hafi losnað undan lestinni og komist í hendur barns, sem hefði getað valdið köfnunarhættu. Í kjölfarið óskaði stofnunin eftir gögnum frá Kids Coolshop Iceland sem gætu staðfest öryggi leikfangsins. Engin gögn bárust stofnuninni.

Lagði stofnunin tímabundið bann við sölu og afhendingu leikfangsins og ítrekaði beiðni sína um afhendingu gagna í sama bréfi. Að sölubanni loknu höfðu enn engin gögn borist stofnuninni vegna málsins. Engar upplýsingar lágu því fyrir um öryggi leikfangsins. Með hliðsjón af skorti á gögnum og þar sem köfnunarhætta kann að skapast þegar börn leika sér með lestina var það niðurstaða Neytendastofu að leikfangalestin gæti verið hættuleg. Smáir hlutir sem detta af leikfangi geta valdið köfnunarhættu hjá ungum börnum.

Í ljósi framangreinds taldi stofnunin nauðsynlegt að banna alla afhendingu á leikfanginu og innkalla það af markaði.

Neytendastofa skorar á alla þá sem keypt hafa umrædd leikföng að hætta notkun þeirra og skila þeim til Kids Coolshop Iceland gegn endurgreiðslu eða að farga þeim.

Ákvörðun Neytendastofu má lesa hér.


TIL BAKA