Fara yfir á efnisvæði

Flugfélög endurgreiða niðurfelld flug

05.10.2021

Í kjölfar viðræðna framkvæmdarstjórnar ESB og neytendayfirvalda aðildarríkjanna við sextán helstu flugfélög Evrópu hafa flugfélögin skuldbundið sig til þess að veita betri upplýsingar og endurgreiðslu sé flug fellt niður. Viðræðurnar áttu rætur sínar að rekja til Covid-19 faraldursins og hófust vegna þeirra fjölda kvartana sem bárust vegna vandamála farþegatengdum afpöntunum og endurgreiðslum á flugferðum.

Ráðherrar framkvæmdarstjórnarinnar sögðu m.a. að í upphafi faraldursins höfðu flugfélögin gengið gegn neytendarétti með því að þrýsta inneignarnótum á flugfarþega í stað endurgreiðslu. Slíkt hafi verið óviðunandi. Eftir viðræðurnar hafi nú flest flugfélögin samþykkt að endurgreiða inneignarnóturnar.

Skuldbindingar flugfélaganna eru eftirfarandi:

1. Eftirstöðvar þeirra endurgreiðslukrafna sem enn eru eftir verða endurgreiddar og farþegar munu fá     endurgreiðslu innan sjö daga í samræmi við reglur ESB.
2. Farþegar verða upplýstir um réttindi sín þegar flug er fellt niður.
3. Flugfélög munu gera farþegum grein fyrir þeim mismunandi valmöguleikum sem standa þeim til boða í     kjölfar þess að flug er fellt niður. Valmöguleikarnir eru endurbókun, endurgreiðsla í peningum eða     inneignarnóta. Þessir valmöguleikar verða kynntir á heimasíðu, með tölvupósti og öðrum samskiptamátum.
4. Í samskiptum við farþega munu flugfélögin gera skýran greinarmun á þeim mismunandi réttindum sem     farþegi á eftir því hvort það sé flugfélagið sem felli niður ferðina eða það sé sem farþeginn hætti við ferðina.
5. Farþegum verða einungis gefnar inneignarnótur óski þeir þess. Flest flugfélögin hafa samþykkt að     endurgreiða ónotaðar inneignarnótur sem flugfarþegar þurftu að taka við snemma í faraldrinum.
6. Farþegar sem bókuðu flug sín í gegnum millilið og eiga í erfiðleikum með að fá endurgreiðslu geta snúið     sér beint að flugfélaginu og fengið endurgreiðslu frá viðkomandi flugfélagi. Gert er ráð fyrir að flugfélögin     muni upplýsa farþega um þennan rétt á heimasíðum sínum.

Flugferðir sem voru hluti af pakkaferð falla ekki undir umræddar skuldbindingar.

Lesa má frétt framkvæmdastjórnar ESB í heild sinni hér.

TIL BAKA