Fara yfir á efnisvæði

Auglýsingar Cromwell Rugs villandi

18.10.2021

Neytendastofu bárust ábendingar um auglýsingar og markaðssetningu Cromwell Rugs á teppum. Í ábendingunum voru gerðar athugasemdir við kynnta verðlækkun þar sem fyrirtækið hafði ekki starfað hér á landi áður.

Neytendastofa fór fram á að Cromwell Rugs sannaði að auglýst teppi hafi verið boðin á tilgreindu fyrra verði áður en kynnt var verðlækkun. Þá fór Neytendastofa fram á að félagið sannaði fullyrðingar um ástæður verðlækkunarinnar. Þar sem um tímabundna sölu var að ræða veitti stofnunin stuttan svarfrest. Fresturinn var þó framlengdur gegn því skilyrði að auglýsingar með tilboðsmerkingum og fullyrðingunum yrðu ekki birtar á meðan fresturinn liði og tilboðsmerkingar tengdar verðlækkuninni teknar niður í verslun.

Þegar ljóst var að fyrirtækið fylgdi ekki skilyrðum framlengds svarfrest tók Neytendastofa bráðabirgðaákvörðun þar sem lagt var bann við auglýsingum og kynningum á sölustað um verðlækkun. Ekki þótti tilefni til að taka bráðabirgðaákvörðun vegna annarra fullyrðinga.

Cromwell Rugs sendi Neytendastofu hlekki á erlendar fréttir til staðfestingar á fullyrðingum í auglýsingum sínum en engin svör bárust til sönnunar á að verðlækkun væri raunveruleg.

Neytendastofa hefur nú lokið endanlegri stjórnvaldsákvörðun í málinu. Þar er m.a. um það fjallað að Neytendastofa taldi þær greinar sem sendar voru stofnuninni ekki sýna fram á tengsl fullyrðinganna og markaðssetningu teppanna hér á landi eða ástæðu þess að fullyrðingarnar leiði til auglýstra verðlækkana frá tilgreindu matsverði teppanna. Þá fjölluðu greinarnar aðeins um hluta þeirra fullyrðinga sem málið varðaði og aðrar fullyrðingar einnig ósannaðar.

Í ákvörðuninni er jafnframt fjallað um að merkingar á teppunum og í auglýsingum gefi til kynna að um verðlækkun sé að ræða. Þar sem Cromwell Rugs sýndi ekki fram á að verðlækkun væri raunveruleg taldi Neytendastofa hana villandi og þar með í andstöðu við góða viðskiptahætti.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA