Fara yfir á efnisvæði

Ákvörðun Neytendastofu staðfest

30.12.2021

Neytendastofu barst kvörtun frá Ísey Skyr Bar vegna markaðssetningar S.G. Veitinga, sem rekur Ísbúð Garðabæjar, á skálum og drykkjum. Ákvörðun Neytendastofu var sú að útlit umbúða og vara Ísey Skyr Bar skorti nægilegt sérkenni til þess að fyrirtækið gæti notið einkaréttar á því. Að sama skapi féllst stofnunin ekki á það að framsetning S.G. Veitinga á vörunum, þ.e. útlit, innihald, heiti og framsetning á vefsíðu, brjóti gegn góðum viðskiptaháttum gagnvart neytendum eða Ísey Skyr Bar.

Ísey Skyr Bar kærði ákvörðunina til áfrýjunarnefndar neytendamála sem nú hefur staðfest ákvörðunina.

Í úrskurði áfrýjunarnefndar er m.a. fjallað um að matarrétti Ísey Skyr Bar skorti nægilegt nýnæmi og sérkenni til að njóta réttarverndar sem sjálfstætt hugverk. Réttir S.G. Veitinga, sem svipi mjög til rétta Ísey Skyr Bars, feli ekki í sér ótilhlýðilegar eftirlíkingar sem brjóti í bága við góða viðskiptahætti. Þá verði því ekki slegið föstu að S.G. Veitingar hafi notfært sér myndir Ísey Skyr Bars við markaðssetningu sína.

Við mat á því hvort hætta væri á að neytendur rugluðust á vörum fyrirtækjanna leit áfrýjunarnefndin m.a. til þess að útsölustaðir fyrirtækjanna bæru verulega ólík nöfn og að auðkenni þeirra væru ólík. Þó báðir kalli matarrétti sína líkum nöfnum verði þau að teljast almenn og lýsandi fyrir viðkomandi vörur.

Úrskurðinn má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA