Fara yfir á efnisvæði

Norrænar eftirlitsstofnanir leggi áherslu á hagsmuni neytenda í stafrænu umhverfi

30.06.2022

Neytendastofa fundaði með fulltrúum annarra neytendastofnana frá Danmörku, Finnlandi, Færeyjum, Grænlandi, Noregi og Svíþjóð í júní þar sem rædd voru vandamál neytenda og aðferðafræði stofnananna við eftirlit vegna rafrænna viðskipta. Stofnanirnar eru sammála um að stafrænar aðferðir við stýringu á neytendum sem leiða af sér markmiðaðar auglýsingar séu hindrun á vel starfandi neytendamarkaði. Þetta eru aðferðir á borð við dökk mynstur (e. dark patterns), víðtæka rakningu (e. tracking) og persónugreiningu. Stofnanirnar hafa því ákveðið að leggja meiri áherslu á þessi málefni til að stuðla að meiri sanngirni og aukinni virðingu fyrir valrétti neytenda í stafrænu umhverfi.

Sjálfstæði neytenda í hættu

Það er orðið erfiðara fyrir neytendur að taka sjálfstæðar og vel ígrundaðar ákvarðanir um viðskipti vegna áhrifa af aðferðum sem eru ætlaðar til að stýra ákvarðanatöku þeirra. Með samblöndu af nýtingu gagna um áhugamál og hegðun neytenda, notkun sálfræðilegra greiningaraðferða og tæknilegra reiknirita verða til öflugar aðferðir sem leiða neytendur til að taka ákvarðanir sem þeir hefðu annars mögulega ekki tekið. Þannig geta fyrirtæki nýtt sér varnarleysi neytenda og haft áhrif á kauphegðun með því að seilast djúpt í persónulegt líf þeirra. Viljum við hafa markað þar sem neytendum sem lýsa yfir áhuga á fjárhættuspilum á samfélagsmiðlum sínum eru um leið birtar auglýsingar með tilboðum um lán? Svarið við þessu er að sjálfsögðu „Nei“.

Norrænar aðgerðir til að vinna gegn stafrænni stýringu
Stofnanirnar eru sammála um að styrkja þurfi samstarf þeirra í tengslum við stafræna og gagnastýrða viðskiptahætti. Vilji er til þess að skiptast á upplýsingum og ráðum um hvernig taka megi á málefninu og að stofnanirnar grípi til sameiginlegra aðgerða til að vinna gegn viðskiptaháttum sem hafa áhrif á val og ákvarðanatöku neytenda. Auk þess munu stofnanirnar eiga samstarf um að bæta þekkingu sína á því hvernig þessir viðskiptahættir hafa áhrif á neytendur. Þetta er mikilvægt skref fyrir stofnanirnar í vinnu þeirra að sanngjörnum stafrænum markaði fyrir neytendur.

TIL BAKA