Fara yfir á efnisvæði

Verðhækkun Tripical Travel óheimil

26.07.2022

Neytendastofu bárust kvartanir frá ferðamönnum vegna hækkunar Tripical Travel á verði pakkaferða. Í svörum félagsins kom fram að hækkunin væri vegna verulegra hækkana á eldsneytisverði sem félagið hefði ekki geta séð fyrir. Heimild til verðhækkunarinnar væri bæði í lögum og skilmálum ferðanna.

Í ákvörðun Neytendastofu er um það fjallað að meginreglan sé sú að verð samnings um pakkaferð skuli haldast óbreytt. Samkvæmt lögum sé þó heimilt að gera verðbreytingu m.a. vegna hækkunar á eldsneytisverði. Þá er um það fjallað að til þess að verðhækkun sé heimil þurfi að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
1) heimild sé til verðbreytinga í skilmálum pakkaferðar,
2) nákvæmlega sé tilgreint hvernig verð skuli reiknað út og
3) ferðamanni sé í samningi veitt sambærileg heimild til verðlækkunar.

Auk þessa skal verðhækkun tilkynnt eigi síðar en 20 dögum fyrir brottför og rökstuðningur og útreikningar hækkunar skulu berast ferðamanni á varanlegum miðli innan sama frests.

Í skilmálum Tripical Travel var félaginu veitt heimild til hækkunar á verði m.a. vegna breytinga á eldsneytiskostnaði en ferðamönnum var ekki veitt heimild til verðlækkunar af sömu ástæðum. Þegar af þeirri ástæðu voru ekki uppfyllt skilyrði laga til hækkunar á verði pakkaferðar. Var Tripical Travel því óheimilt að hækka verð ferðarinnar.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA