Fara yfir á efnisvæði

Nýjar leiðbeiningar Neytendastofu um merkingar auglýsinga á samfélagsmiðlum

31.08.2022

Neytendastofa hefur nú gefið út uppfærðar leiðbeiningar stofnunarinnar um merkingar auglýsinga á samfélagsmiðlum.

Er leiðbeiningunum ætlað að auðvelda þeim sem taka að sér að auglýsa vöru eða þjónustu gegn endurgjaldi að standa rétt að merkingu auglýsinganna svo að skilyrðum viðeigandi laga sé uppfyllt. Eins og heiti þeirra gefur til kynna eru þær aðeins til leiðbeiningar og fjalla því ekki með tæmandi hætti um það hvenær merking telst nægileg. Þær koma þó að góðum notum til að upplýsa um skylduna til að merkja auglýsingar með skýrum hætti og til að koma í veg fyrir að auglýsingar feli í sér lögbrot á þeim grundvelli að þær teljist duldar vegna engra eða ónógra merkinga.

Í leiðbeiningunum er í upphafi fjallað almennt um bann við duldum auglýsingum. Þar á eftir er gerð grein fyrir því hvenær lögin eiga við og þá aðallega hvað flokkast sem auglýsingar á grundvelli laganna. Næst er fjallað um staðsetningu, útlit og orðalag merkinga, ásamt þeim sjónarmiðum sem koma helst til skoðunar við mat stofnunarinnar á hæfilegum merkingum. Þá eru að finna sýnidæmi fyrir ýmsa algenga samfélagsmiðla og umfjöllun um aðrar reglur sem koma til greina við mat á lögmæti auglýsinga á samfélagsmiðlum sem þarf sérstaklega að hafa í huga. Að lokum er í leiðbeiningunum komið inn á ábyrgð á brotum, eftirlit Neytendastofu með ákvæðum þeirra laga sem fjalla um auðþekkjanlegar auglýsingar, möguleg viðurlög við brotum og svo framvegis.

Leiðbeiningarnar má nálgast hér.

TIL BAKA