Fara yfir á efnisvæði

Neytendastofa gerir athugun á skilmálum tölvuverslana

20.01.2023

Neytendastofa framkvæmdi nýverið athuganir á því hvort tölvuverslanir sem selja vörur sínar m.a. í gegnum vefverslanir uppfylltu kröfur um upplýsingagjöf til neytenda í samræmi við ákvæði laga um neytendasamninga nr. 16/2016. Í þetta skiptið lagði stofnunin áherslu á birtingu upplýsinga um réttinn til að falla frá samningi og skyldu til að birta upplýsingar um lögbundinn rétt neytenda þegar söluhlutur reynist gallaður. Fyrirtæki þau sem voru til skoðunar voru Origo, Epli, Tölvutek, Tölvulistinn, Elko, Kísildalur, Computer.is, Opin Kerfi og Macland.

Við fyrstu yfirferð voru gerðar athugasemdir við skilmála allra verslana. Í einu tilviki voru þó skilmálar um rétt neytenda til að falla frá samningi til samræmis við ákvæði laganna og þar aðeins gerð athugasemd við skilmála um ábyrgð félagsins á gölluðum vörum. Það þótti þó eftirtektarvert að í flestum tilvikum féllu skilmálar fyrirtækja illa að ákvæðum laganna um réttinn til að falla frá samningi. Í flestum tilvikum var hvergi fjallað um þann rétt og ákvæði um skilarétt yfirleitt mun þrengri en ákvæði laganna heimila.

Í ákveðnum tilvikum virtist gilda sá misskilningur að sambærilegar reglur væru í gildi varðandi skilarétt neytenda þegar verslað er í sjálfri versluninni og þegar verslað er á netinu. Svo er hins vegar ekki, þar sem skilaréttur neytenda við fjarsölu (t.a.m. þegar verslað er á netinu) er sérstaklega lögbundinn, sbr. VI. kafli laga nr. 16/2016. Samkvæmt téðum ákvæðum gildir sú almenna regla að neytendur hafa 14 daga frá afhendingu vörunnar til að falla frá samningnum án þess að tilgreina ástæðu (skila vörunni án ástæðu). Sá réttur kann þó að framlengjast í 12 mánuði frá því að upphaflegi fresturinn rann út ef neytendum er ekki kynntur þessi réttur sinn, sbr. 3. mgr. 17. gr. laganna. Eigi þessi framlengdi frestur við ber síðan neytandinn ekki ábyrgð á neinni verðrýrnun á vörunni.

Umrædd fyrirtæki tóku að mestu vel í athugasemdir stofnunarinnar og hafa nú breytt ákvæðum í skilmálum sínum í samráði við Neytendastofu og til samræmis við ákvæði laganna og athugasemdir stofnunarinnar. Þurfti stofnunin því ekki að grípa til frekari aðgerða til að knýja fram aðgerðir hjá umræddum fyrirtækjum.

Hvetur Neytendastofa alla þá sem telja að upplýsingagjöf vefverslunar sé ekki í samræmi við kröfur umræddra laga að senda stofnuninni ábendingu af vef stofnunarinnar eða í gegnum tölvupóstfangið postur@neytendastofa.is.

TIL BAKA