Neytendastofa 20 ára
Í dag 1. júlí fagnar Neytendastofa 20 ára afmæli sínu en hún var sett á fót til að auka veg neytendamála og efla þannig neytendavernd.
Tilgangur neytendaverndar er að jafna stöðu samningsaðila. Þess vegna eflum við og styrkjum neytendamál og neytendavernd m.a. með því að bæta þekkingu um málaflokkinn. Síðustu ár höfum við séð aukningu í neytendavitund á Íslandi sem endurspeglast í því að bæði fyrirtæki og neytendur eru meðvitaðri um rétt sinn og skyldur.
Á þessum tíma hefur traust til Neytendastofu aukist ár frá ári samhliða aukinni þekkingu á neytendamálum. Þá hefur stofnun birt tæplega 940 ákvarðanir og um það bil 4000 mál verið tekin til meðferðar. Ákvarðanir Neytendastofu vekja talsverða athygli og leiða af sér opinbera umræðu um neytendamál. Neytendastofa gefur einnig út leiðbeiningar sem gagnast bæði fyrirtækjum og neytendum og þá sérstaklega þegar ný löggjöf hefur verið sett eða reynir á ný álitaefni.
Neytendastofa er í samstarfi við aðrar ríkisstofnanir, frjáls félagasamtök og atvinnulífið við val á þeim málum sem lögð er áhersla á auk þess sem ábendingar frá neytendum hafa veruleg áhrif. Stofnunin leggur áherslu á að forgangsraða málum út frá heildarhagsmunun neytenda sem leiðir til þess að mörg málanna eru verulega umfangsmikil og leiða til fjölda ákvarðana. Sem dæmi má nefna mál sem snerta umhverfis- og heilsufullyrðingar, starfsemi smálánafyrirtækja, skilmála við almenna lánveitingu, pakkaferðir og nú síðast gjaldtöku á bílastæðum.
Neytendastofa vill á þessum tímamótum þakka þeim fjölmörgu fyrirtækjum, stofnunum og félagasamstökum sem hún hefur haft samskipti við og sérstaklega áhugavert hvað neytendur hafa verið virkir í að nýta sér þjónustu okkar og koma með ábendingar en tæplega 3000 ábendingar og fyrirspurnir bárust í fyrra.