Fara yfir á efnisvæði

Raflögnum og rafbúnaði á sveitabýlum víða ábótavant

04.02.2003

Niðurstöður umfangsmikillar skoðunar Löggildingarstofu leiða í ljós að raflögnum og rafbúnaði á íslenskum sveitabýlum er víða ábótavant. Á fjórða hundrað sveitabýli vítt og breitt um landið voru skoðuð af óháðum faggiltum skoðunarstofum á síðastliðnum þremur árum. Markmiðið með skoðununum var að fá sem gleggsta mynd af ástandi raflagna og rafbúnaðar sveitabýla og koma ábendingum á framfæri til eigenda og umráðamanna þeirra um það sem má betur fara.

Skoðanirnar tóku til stærstu sem smæstu þátta, einkum er varðaði rafmagnstöflur, raflagnir og almennan rafbúnað. Athygli vekur að athugasemdir eru gerðar við þrjú atriði á allflestum sveitabýlum sem skoðuð voru. Athugasemdir voru gerðar við merkingu töflubúnaðar í 92% tilvika, tengla í 85% skoðana og töflutaugar í 79 % tilvika. Ennfremur var rafbúnaður, svo sem loft- og vegglampar og töfluskápar, víða í ólagi.

Brýnt að eigendur fái fagmenn til að yfirfara og lagfæra rafbúnað !!!

Gamall og bilaður rafbúnaður og aðgæsluleysi forráðamanna eru meðal helstu orsaka rafmagnsbruna og því er afar mikilvægt að rafbúnaður á sveitabýlum sé ávallt valinn með tilliti til staðsetningar og notkunar. Úr sumum ágöllum má bæta með betri umgengni en flestar athugasemdirnar kalla á fagþekkingu. Eigendur og umráðamenn sveitabýla bera ábyrgð á ástandi þess rafbúnaður sem þar er notaður. Einungis löggiltir rafverktakar mega bera ábyrgð á raflagnavinnu og því er brýnt að eigendur fái löggiltan rafverktaka til að yfirfara raflagnir og rafbúnað á sveitabýlum svo að öryggi manna og dýra sé tryggt.

Skýrslu Löggildingarstofu um ástand raflagna á sveitabýlum verður á næstu dögum dreift til allra lögbýla í landinu.

TIL BAKA