Fara yfir á efnisvæði

Verðmerkingaeftirlit í Árborg og Hveragerði í apríl 2010

26.05.2010

Í apríl síðastliðnum var ástand verðmerkinga kannað hjá 64 verslunum og þjónustuaðilum á Árborgarsvæðinu og í Hveragerði. Í fyrri könnun sem gerð var í október sl. voru 25% fyrirtækja ekki með verðmerkingar í lagi en þau eru nú um 14%.

Farið var í fjögur apótek, verslanir Lyfja og heilsu í Hveragerði, Þorlákshöfn og á Selfossi auk verslunar Lyfju á Selfossi og voru verðmerkingar í lagi.

Farið var í 5 matvöruverslanir, Krónunni, Bónus og Samkaup Úrval á Selfossi auk Kjarvals í Þorlákshöfn og Bónus í Hveragerði og þurfa þær allar að bæta verðmerkingar sínar.  Samtals voru gerðar 12 athugasemdir í þessum 5 verslunum nú en síðast voru athugasemdirnar 41 í sömu 5 verslunum.

Engar athugasemdir voru gerðar við verðmerkingar í verslunarrými þeirra sérverslana sem heimsóttar voru að þessu sinni en hinsvegar voru tvær verslanir, Do Re Mí og Barón með ófullnægjandi verðmerkingar í sýningargluggum.

Þá voru þrír stórmarkaðir með sérvöru heimsóttir, Europris, Byko og Húsasmiðjan á Selfossi og samræmi milli verðmerkinga við hillu og á afgreiðslukassa kannað auk verðmerkinga almennt.  Í ljós kom að misræmi var á verði í 8% tilvika í öllum verslununum.

Þá voru 5 bakarí á svæðinu heimsótt og í ljós kom að verðmerkingum í Vilberg kökuhúsi og Guðnabakaríi var ábótavant.

4 hárgreiðslu- og snyrtistofur voru heimsóttar að þessu sinni og reyndust allar verðmerkingar í samræmi við reglur.

Samtals voru 13 bensínafgreiðslustöðvar heimsóttar í þessari umferð og voru það hvort tveggja sjálfsafgreiðslustöðvar og stöðvar sem bjóða upp á fulla þjónustu. Aðeins ein athugasemd var gerð varðandi samræmi milli hilluverðs og kassaverðs og var það vörutegund í verslun Skeljungs í Hveragerði. Auk þess voru gerðar athugasemdir við verðmerkingar  í kæli hjá Skeljungi við Hásteinsveg 4 á Stokkseyri.

Annað tveggja hjólbarðaverkstæða sem heimsótt voru var ekki með sýnilega verðskrá en það var Sólning á Selfossi. Bílaverkstæði  Jóhanns reyndist hinsvegar vera með sínar verðmerkingar í lagi.

Neytendastofa hvetur neytendur til að vera á verði og koma ábendingum til skila í gegnum rafræna neytendastofu á vefslóðinni www.neytendastofa.is.

 

TIL BAKA