Fara yfir á efnisvæði

Tímabundið bann við afhendingu endurskinsmerkja Strætó BS

24.10.2013

Fréttamynd

Neytendastofa hefur lagt tímabundið bann við afhendingu endurskinsmerkja sem Strætó BS hefur verið að dreifa. Bannið er sett í kjölfar ábendingar sem Neytendastofu barst um að Strætó BS væri að dreifa endurskinsmerkjum sem ekki væru í lagi. 

Endurskinsmerkin eru alveg ómerkt. Því er ekki hægt að sjá að merkin séu framleidd í samræmi við lög, reglur og staðla, og hafi þar af leiðandi verið prófuð sem slík og því örugg fyrir neytendur.

Vegna þess hve erfitt það er fyrir neytendur að kanna gæði endurskinsmerkja verða framleiðendur, innflytjendur, dreifingaraðilar og söluaðilar að sjá til þess að merkin séu örugg,  Endurskinsmerki eiga að vera með CE-merki, nafni framleiðanda og tegund eða heiti vörunnar. Merkin eiga að vera með íslenskum leiðbeiningum, merkt með staðlinum EN 13356, upplýsingum um tilkynntan aðila sem staðfest hefur samræmi merkisins við kröfur. Þá eiga þau að vera merkt með nafni og heimilisfangi framleiðanda auk annarra nauðsynlegra upplýsinga, s.s. um notkun þ.m.t hvort merkin þoli þvott, hvernig á að festa endurskinsmerki, þannig að það spegli ljós úr öllum áttum, o.fl.

Neytendastofa hvetur neytendur til að skoða allar merkingar og upplýsingar sem fram koma á endurskinsmerkjum. Um leið viljum við ítreka að það er ekki hægt að sjá hversu gott endurskinsmerkið er með því einu að horfa á þau eða  með því að prófa þau sjálf.  Viðurkennd endurskinsmerki hafa verið prófuð sérstaklega.

TIL BAKA