Fara yfir á efnisvæði

Hársnyrtistofur verða að bæta verðmerkingar

01.03.2011

Dagana 13.jan. – 2. Feb.  sl. skoðaði starfmaður Neytendastofu verðmerkingar hjá hársnyrtistofum á höfuðborgarsvæðinu. Farið var á 156 hársnyrtistofur og athugað hvort verðskrár  væru aðgengilegar viðskiptavinum og  hvort að sérvörur væru verðmerktar.

Í ljós kom að meirihluti hársnyrtistofa var með verðskrá yfir þjónustu sýnilega eða 83%, þetta er töluverð framför frá síðustu skoðun sem gerð var í febrúar 2009, en þá var verðskrá sýnileg hjá 66% þeirra 128 stofa sem heimsóttar voru þá.

 Einnig var skoðað hvort hársnyrtistofurnar væru með sérvörur sínar verðmerktar og kom í ljós að verðmerkingar voru ekki sem skyldi hjá 26% þeirra 150 stofa sem voru með sérvörur til sölu. Þetta er alls ekki ásættanlegt og er ástæða til að vekja athygli á því að verðmerkingar á vörum á bak við búðarborð og í lokuðum glerskápum verða að vera vel sýnilegar og ekki er nóg að verðmerkja bara hluta söluvara, allt verður að vera merkt.

Í heildina fengu 35% þeirra 156 hársnyrtistofa sem heimsóttar voru áminningu um að laga verðmerkingar og vonumst við til að rekstraraðilar bregðist hratt og vel við þeim tilmælum. Neytendur geta veitt okkur aðstoð í virku markaðseftirliti með því að senda inn ábendingar varðandi verðmerkingar og annað sem varðar hag neytenda, á www.neytendastofa.is.

 

TIL BAKA