Fara yfir á efnisvæði

NordJust fundur

09.09.2011

Fréttamynd

Dagana 25. og 26. ágúst sl. var haldinn árlegur NordJust fundur hjá Neytendastofu þar sem fulltrúar frá Norðurlöndunum sem starfa við mælifræði og þó einkum lögmælifræði hittust. Einn fulltrúi kom frá Finnlandi, Svíþjóð og Noregi en tveir frá Danmörku og svo sátu fimm frá Neytendastofu fundinn. Megintilgangur fundarins er að fara yfir málefni á sviði lögmælifræði og bera saman innlendar reglur og framkvæmd eftirlits með mælingum og mælitækjum í viðskiptum á Norðurlöndunum og fara yfir ýmis mál er snerta evrópskt samstarf á sviði lögmælifræði hjá WELMEC. Öll Norðurlöndin innleiða sömu ESB tilskipanir um mælitæki og höfum við mikið gagn af því að skoða innleiðinguna í hinum löndunum. Vandamál sem upp koma hérlendis eru oftast hin sömu og annars staðar og slíkur fundur auðveldar því lausn slíkra mála. Samstarf við önnur lönd er mjög mikilvægt fyrir Ísland og ekki síst við Norðurlöndin og í sumum tilvikum koma Norðurlöndin sér saman um sameiginlega stefnu í evrópska samstarfinu hjá WELMEC.

Sem dæmi um fundarefni má nefna að í Noregi er verð að endurskoða reglur um löggildingu gjaldmæla fyrir leigubifreiðar en hjá Neytendastofu hafa verið gerð drög að reglugerð um löggildingu þeirra að beiðni Samgönguráðuneytisins (nú Innanríkisráðuneytis). Hérlendis vantar búnað til að prófa mælana og því fróðlegt fyrir okkur að heyra hvernig Norðmenn prófa. Einnig var rætt um mismunandi tímabil á milli landanna á milli eftirlits eða löggildingar raforkumæla og mismunandi tímabil á milli aflestra en í Svíþjóð er notaður sjálfvirkur aflestur slíkra mæla og reikningur gerður fyrir hvern mánuð. Á óvart kom að í Noregi lesa notendur sjálfir af rafmagnsmælum og senda til dreifiveitna

TIL BAKA