Fara yfir á efnisvæði

Hættulegt ferðamillistykki.

25.08.2004

 

Raffangasalinn TARGUS stendur nú fyrir innköllun á u.þ.b. 200 hættulegum ferðamillistykkjum sem seld hafa verið á Íslandi.

Raffang: Ferðamillistykki.

Vörumerki: TARGUS.

Vöruheiti: Universal All-In-One Plug Adapter / Travel Power Adapter.

Tegund / Gerð: PA033E.

Framleiðandi: Ahoku Electronic Company, Taipei, Taiwan.

Dreifingaraðili: Targus Europe Ltd.

Þekktir söluaðilar á Íslandi: Tölvudreifing hf, Stórhöfða 27, 110 Reykjavík og Tæknival hf, Skeifunni 17, 108 Reykjavík. Einnig var raffangið boðið til sölu í netverslun TARGUS á u.þ.b. 20 evrur.

Hætta: Yfirvöld rafmagnsöryggismála í Finnlandi (TUKES) og Svíþjóð (Elsäkerhetsverket) hafa komist að þeirri niðurstöðu að snertihætta (hætta á raflosti) sé af raffanginu við venjulega notkun og einnig geti stafað af því brunahætta. Ekki er þó vitað um slys eða bruna af völdum viðkomandi raffangs.

Lýsing á raffanginu: Innköllunin nær til 110/220V ferðamillistykkja með vörumerkinu TARGUS á framhlið tækisins og gerðarmerkingunni PA033E (selt í Evrópu) á bakhlið umbúðanna. Allar gerðir (tegundanúmer) eru innkallaðar, einnig þær sem kunna að hafa verið keyptar erlendis s.s. PA033U (selt í Bandaríkjunum), PA033C (selt í Kanada) og PA033B (selt í Asíu), einnig millistykki sem kunna að hafa verið seld sem hluti af setti.

Á bakhlið millistykkisins eru þrennskonar rafmagnsklær sem rennt er út úr því og þannig hægt að nota það við tengla (innstungur) í mismunandi löndum. Á hlið þess er rofi með þremur stillingum "USA/Aust/N.Z", "Europe" og "U.K.".

Hvað eiga eigendur slíkra ferðamillistykkja að gera ?: Eigendur slíkra millistykkja eiga að sjálfsögðu að hætta notkun þeirra þegar í stað. TARGUS býður endurgreiðslu gegn því að haft sé samband við fyrirtækið í síma +44- 131 458 9239 (ath. að númerið er í Bretlandi en kostnaður vegna símtalsins verður endurgreiddur um leið og millistykkið) eða á veraldarvefnum á heimasíðu TARGUS, http://www.targus.com/recall. Einnig er hægt að hafa samband við seljanda hér á landi.

 

TIL BAKA