Fara yfir á efnisvæði

Skýjaluktir – kínversk ljósker

11.01.2013

Fréttamynd

Neytendastofa vill benda á að fólk sýni mikla aðgát við notkun skýjalukta. Þó svo að luktirnar séu fallegar þá geta þær verið stórhættulegar og valdið miklu tjóni. Skýjaluktir eða kínversk ljósker eru gerð úr pappír og innihalda vaxkubb eða annað eldfimt efni sem kveikt er í. Við það fyllist luktin af heitu lofti, sem veldur því að luktin hefst á loft. Skýjaluktin helst aðeins á lofti eins lengi og loginn logar. Vandamálið við luktina er að ekki er hægt að hafa stjórn á hvert hún fer eða hvar hún lendir. Það kemur fyrir að luktir hafa enn verið logandi þegar þær hafa fallið til jarðar og valdið íkveikju á húsum og gróðri.

Önnur áhrif og ekki síður hættuleg geta skapast af skýjaluktum.  Ljósin líkjast mjög neyðarblysum en landhelgisgæslan verður að kanna hverja tilkynningu sem berst um neyðarblys á lofti.  Hjá bresku strandgæslunni hefur tilkynningum fjölgað um 700% þar sem fólk hefur talið sig sjá neyðarblys en í reynd var um að ræða ljósker. Þessi umræða hefur komið fram víða einnig hér á Íslandi.  Luktin brennur ekki öll upp í háloftinu, það fellur alltaf til jarðar drasl eins vírinn sem er í luktunum. Þekkt er að hann hefur fallið þar sem búfé er og það hefur etið vírinn og hann valdið blæðingum og jafnvel dauða.Svífandi ljósker hafa einnig reynst hættuleg flugvélum, þar sem þau geta farið í hreyflana á vélunum og útbrunnar luktir hafa fallið á flugvelli.

Luktirnar geta því valdið hættu fyrir fólk, eignir og umhverfi.

Í Evrópu hefur mikil umræða skapast vegna hættu sem getur skapast af þessum ljósum. Þegar hafa  um 10 ESB ríki bannað þessar luktir s.s. Finnland, Austurríki og Spánn. Sum ríki hafa sett takmarkanir og gert auknar öryggiskröfur t.d. Hollendingar. Neytendastjórnvöld í Hollandi hafa m.a. gert kröfu um breytta hönnun vörunnar þannig að eldurinn í luktinni nái ekki að kveikja í undirliggjandi efni þó að ljóskerið lendi á t.d. þaki eða grasi sem getur kviknað auðveldlega í.

Neytendastofa varar almenning við notkun skýjalukta og hvetur fólk til að gæta ýtrustu varúðar við meðferð þeirra.

TIL BAKA