Fara yfir á efnisvæði

Ástand verðmerkinga á Hellu, Hvolsvelli, Vík, Kirkjubæjarklaustri og Höfn

17.09.2008

Neytendastofa hefur gert könnun á ástandi verðmerkinga frá Hellu til Hafnar. Skoðaðar voru matvöruverslanir, bakarí, og sérvöruverslanir.

Farið var í fimm matvöruverslanir á svæðinu. Valdar voru 25 vörur af handahófi í hverri verslun, kannað hvort þær væru verðmerktar og hvort verðmerking á hillu væri í samræmi við verð í kassa. Engin matvöruverslun var með allt rétt merkt. Alls voru skoðaðar 125 vörur og voru verðmerkingar af 13% þeirra í ólagi, sjá nánar hér.

Farið var í eitt bakarí og kannaðar annars vegar merkingar í kæli og hins vegar í borði. Vörur í kæli reyndust óverðmerktar en ástand verðmerkinga í borði var gott.

Verðmerkingar voru kannaðar í sjö sérvöruverslunum bæði inni í verslunum og í sýningargluggum, þar sem það á við. Ástand verðmerkinga var almennt gott og í verslununum Hjá Dóru, Blóm og Bróderí og Martölvan á Höfn voru engar athugasemdir gerðar.

Aðilum sem Neytendastofa telur ástæðu til að gera athugasemdir við vegna ástand verðmerkinga verður sent bréf frá stofnuninni og gefinn kostur á að koma verðmerkingum í viðunandi horf. Könnuninni verður fylgt eftir og ef þurfa þykir teknar ákvarðanir um hugsanleg viðurlög vegna slæms ástands verðmerkinga.

Neytendastofa hyggst halda verðmerkingareftirliti sínu áfram og kanna verðmerkingar á öðrum svæðum á landinu.

Ábendingum vegna rangra eða ófullnægjandi verðmerkinga má koma til neytendastofa í gegnum rafræna Neytendastofu á vefslóðinni www.rafraen.neytendastofa.is.
 

TIL BAKA