Fara yfir á efnisvæði

Neytendastofa sektar ferðaskrifstofu

27.08.2009

Neytendastofa hefur lagt 600.000 króna stjórnvaldssekt á Heimsferðir fyrir að fara ekki að tilmælum stofnunarinnar.

Á bókunarvef Heimsferða er bókunarferlinu skipt upp í nokkur þrep. Á fyrsta þrepi er valinn áfangastaður og fjöldi farþega. Á öðru þrepi eru valdar dagsetningar ferðarinnar bæði á leið út og bakaleið. Á þriðja þrepi er valið hótel og kemur þar fram verð ferðar undir yfirskriftinni „verð frá“. Þegar hótel hefur verið valið er farið á fjórða þrep þar sem fram kemur heildarverð ferðarinnar. Við það verð sem birtist á þriðja þrepi hefur í fjórða þrepi bæst flugvallaskattar og önnur gjöld og eftir atvikum hækkun á eldsneytisgjaldi, þ.e. eldsneytisálag. Þá geta neytendur á fjórða þrepi valið hvort þeir óski eftir að kaupa rútuferð til og frá flugvelli.

Á seljendum vöru og þjónustu hvílir afdráttarlaus skylda til að gefa upp endanlegt verð vöru sinnar eða þjónustu. Því er það mat Neytendastofu að sú framsetning Heimsferða að gefa upp „verð frá“ sem inniheldur ekki skatta og önnur gjöld sé brot gegn ákvæðum laga nr. 57/2005 sem og reglna um verðmerkingar. Er sú krafa um verðframsetningu í samræmi við þær kröfur sem stofnunin hefur gert til annarra ferðaskrifstofa og flugrekenda.

Í málinu beindi Neytendastofa ítrekað tilmælum til Heimsferða um að koma verðframsetningu í lögmætt horf. Að lokafresti liðnum höfðu breytingar ekki enn verið gerðar og því taldi Neytendastofa rétt að leggja á Heimsferðir stjórnvaldssekt að fjárhæð 600.000 krónur.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér

TIL BAKA