Fara yfir á efnisvæði

Kvörtun Arion banka vegna upplýsinga á vefsíðu Allianz

28.12.2010

Arion banki kvartaði við Neytendastofu yfir upplýsingum á vefsíðu Allianz um viðbótarlífeyrissparnað. Kvörtunin var fjórþætt og snéri að því að í fyrsta lagi væri lofað 2,25% lágmarksávöxtun án þess að fram kæmi í hvaða gjaldmiðli ávöxtunin væri tryggð. Í öðru lagi væri fullyrt að sveiflur í ávöxtun væru litlar. Í þriðja lagi væri fullyrt að Allianz byði öruggustu ávöxtun sem um gæti hér á landi og í fjórða lagi væri ávöxtunartafla fyrir árið 2003-2008 sett fram með villandi hætti og væri til þess fallin að vekja falskar væntingar hjá viðskiptavinum.

Allianz hafnaði því alfarið að upplýsingar á vefsíðu félagsins væri villandi eða að fullyrðingar fengjust ekki staðist.

Neytendastofa féllst á athugasemdir Arion og taldi Allianz hafa brotið gegn ákvæðum laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, með því að:
•   greina ekki frá því með nægilega skýrum hætti að fullyrðing um tryggða lágmarksávöxtun eigi við um ávöxtun sparnaðar hjá sjóðnum í evrum,
•   greina ekki frá því með nægilega skýrum hætti að upplýsingar um litlar sveiflur í ávöxtun eigi við um ávöxtun sparnaðar hjá sjóðnum í evrum,
•   greina ekki frá því með skýrum hætti að ástæðu þess að ávöxtun sjóðsins í íslenskum krónum árið 2008 megi rekja til hruns íslensku krónunnar og mikillar verðbólgu á Íslandi það ár.
Auk þess sem félagið braut gegn sömu lögum með því að geta ekki sannað fullyrðinguna um að Allianz byði öruggustu ávöxtun sem um geti hér á landi.

Ákvörðun nr. 52/2010 má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA