Fara yfir á efnisvæði

Ársskýrsla 2009 um hættulegar vörur sýnir að samstarf stjórnvalda á EES svæðinu virkar vel

19.04.2010

Á árinu 2009 varð 7% aukning í heildarfjölda tilkynninga sem Neytendastofu barst í gegnum RAPEX tilkynningakerfi Evrópusambandsins samanborið við heildarfjölda tilkynninga á árinu 2008 samkvæmt árlegu yfirliti Evrópusambandsins. Aukin áhersla í aðildarríkjum á EES svæðinu hefur leitt til þess að tilkynningar um hættulegar vörur voru alls 1993 á árinu 2009 en þær voru alls 1866 árið 2008.
Fyrirtæki í Evrópu eru orðin betur meðvituð um ábyrgð sína um að setja einungis á markað öruggar vörur og virðast nú fúsari til að viðurkenna skyldur sínar til að afturkalla af markaði vörur sem ekki eru nægilega öruggar. Fyrirtækin eru einnig byrjuð að nota í vaxandi mæli sérstakt tilkynningakerfi þar sem þau geta á einum stað á Netinu með skjótum og einföldum hætti sent inn tilkynningu samtímis til allra stjórnvalda á EES svæðinu (e. Business Application) en íslensk fyrirtæki hafa aðgang að kerfinu á heimasíðu Neytendastofu.
Leikföng, föt og bifreiðar voru algengustu vörutegundir sem tilkynningar bárust um á á árinu 2009. Birtar er nú opinberlega niðurstöður úr samstarfsverkefni um markaðseftirlit á öryggi leikfanga sem alls 13 Evrópusambandsríki framkvæmdu nýlega. Í ljós kom að 20% leikfanga sem voru skoðuð voru ekki í samræmi við þær öryggiskröfur sem lög og reglur gera kröfur um.

John Dalli, framkvæmdastjóri ráðuneytis neytendamála hjá Evrópusambandinu segir: „Þessi skýrsla er gerð til þess að við árlega hugum að því hvernig að ástandið er varðandi öryggi vöru á EES markaðnum fyrir neytendur. Öryggi neytenda er forgangsmál fyrir alla íbúa á Evrópska efnahagssvæðinu og á undanförnum árum hefur RAPEX tilkynningakerfið sannað vel hversu víðtæk og skilvirkt samstarf stjórnvalda með öryggi vöru er á EES svæðinu”.

Heildarfjöldi á vörum sem tilkynnt er að séu hættulegar fer vaxandi
Heildarfjöldi þeirra tilkynninga sem eru sendar inn í RAPEX tilkynningakerfið hefur vaxið jafnt og þétt frá árinu 2004 (þegar að endurnýjuð tilskipun um öryggi vöru var innleidd á EES svæðinu). Á þessum sex árum hefur heildarfjöldi tilkynninga fjórfaldast þ.e úr 468 tilkynningum árið 2004 í 1993 á árinu 2009. Fjöldi tilkynninga hefur aukist um 7% á árinu 2009 samanborið við árið 2008. Aukinn fjöldi RAPEX tilkynninga skýrist m.a.af eftirfarandi atriðum:
- aukin áhersla á markaðseftirlit í einstökum aðildarríkjum
- aukin skilvirkni og hagnýting á starfskröftum og fjármunum
- aukinn skilningur hjá fyrirtækjum á hversu ríkar skyldur þau hafa gagnvart neytendum
- aukin samvinna við stjórnvöld í ríkjum sem eru utan EES svæðisins
- bætt tengslanet, samstarf og aukin áhersla ESB á þjálfun þeirra sem starfa að eftirliti.

Smávægileg aukning varð á árinu á tilkynningum um hættulegar vörur sem eiga uppruna sinn í Kína en þær voru 59% á árinu 2008 en 60% á árinu 2009. Greina má að nokkur aukning varð á fjölda tilkynninga þar sem engar upplýsingar var að finna um upprunaland þeirrar hættulegu vöru sem tilkynnt var um.

Öll ríki leggja til upplýsingar í RAPEX
Öll ESB og EES ríki taka þátt í RAPEX kerfinu með því senda inn tilkynningar um hættulegar vörur sem þau finna á markaði og sjá þau jafnframt til þess að ábendingum sé fylgt eftir og gripið sé til viðeigandi ráðstafana. Í helmingi þátttökuríkja jókst starfsemin hjá eftirlitsstjórnvöldunum og sendu þau fleiri tilkynningar inn í kerfið en þau gerðu árið 2008. Þau ríki sem sendu inn flestar tilkynningar voru Spánn (220), Þýskaland (187), Grikkland (154), Búlgaría (122) og Ungverjaland (119). Samanlagt var 47% tilkynninga um allar hættulegar vörur frá framangreindum ríkjum inn í RAPEX kerfið.

Leikföng, föt, textílvörur og bifreiðar eru algengustu vörurnar á listanum
Á árinu 2009 tóku 60% tilkynninga um hættulegar vörur til leikfanga (472), föt og textílvörur (395) og bifreiðar (146). Raftæki voru fjórði algengasti vöruflokkurinn en þar bárust alls 138 tilkynningar um hættulegar vörur.

Helstu niðurstöður um öryggi leikfanga í markaðseftirliti stjórnvalda
Árið 2009 fóru stjórnvöld í alls 13 ríkjum í sameiginlegt verkefni til þess að athuga öryggi leikfanga og hvort þau væru í samræmi við kröfur laga um öryggi vörunnar. Skoðanir fóru einkum fram hjá innflytjendum og smásölum en tollyfirvöld athuguðu einnig um 160 vörusendingar.
Alls voru 803 sýni tekin og send til prófunar hjá prófunarstofum þar sem 576 sýni voru prófuð gagnvart hreyfivirkni leikfanganna og alls voru 227 sýni send til prófunar á innihaldi þungmálma í leikföngunum. Alls féllu 200 sýni á prófi gagnvart hreyfivirkni en aðeins féllu 17 sýni á prófi gagnvart reglum sem gilda um innihald þungmálma í leikföngum. Átakið varð til þess að mjög margar RAPEX tilkynningar voru sendar og stjórnvöld kröfðust úrbóta vegna leikfanga sem fundust og uppfylltu ekki öryggiskröfur laga. Megintilgangur verkefnisins sem skipulagt var af samstarfsneti stjórnvalda (PROSAFE) er að fækka leikföngum á EES markaðnum sem ekki uppfylla kröfur varðandi öryggi, líf og heilsu.
Jafnframt stuðlaði þetta verkefni að auknu samstarfi milli stjórnvalda sem fara með markaðseftirlit í löndunum og þau öfluðu sér meiri reynslu við að beita reglum um sem gilda um öryggi vöru á markaði. Stjórnvöld í aðildarríkjunum og á Íslandi munu áfram auka og styrkja samstarf sitt til að tryggja að farið sé eftir reglum sem gilda um öryggi vöru á markaði og vinna að fræðslu og upplýsingagjöf til fyrirtækja og neytenda um öryggi vöru.
Nánari upplýsingar má sjá
MEMO/10/129 and MEMO/10/130
og 
http://ec.europa.eu/consumers/safety/news/index_en.htm.

Reykjavík 19. apríl 2010.

 

TIL BAKA