Fara yfir á efnisvæði

Farandsölumenn

25.06.2009

Neytendastofa vill benda fólki á að gæta varúðar þegar verslað er við farandsölumenn. Að gefnu tilefni er sérstaklega varað við að kaupa raftæki og skartgripi sem sagðir eru úr ekta gulli af farandsölumönnum. Varðandi raftæki þarf sérstaklega að athuga hvert eigi að leita komi upp galli eða önnur vandamál með vöruna og hvort ábyrgð sé ekki að minnsta kosti tvö ár. Einnig þarf kaupandi að gæta að því að raftækið sé CE-merkt. 
Skartgripir úr eðalmálmi sem seldir eru á Íslandi eiga samkvæmt lögum að vera merktir með hreinleikastimpli og nafnastimpli. Markmiðið með lögunum er m.a. að vernda neytendur fyrir svikum. Fólk þarf að hafa í huga að þegar það kaupir skartgripi að ekki er hægt að sjá hversu mikið magn af eðalmálmi þ.e. gulli, silfri, palladíum og platínum sé í þeim með því einu að snerta hlutinn eða horfa á hann. Eina staðfestingin á því hversu mikið hlutfall eðalmáls er í hlutnum er þriggja tölustafa hreinleikastimpill, sem segir til um þann hreinleika sem seljendur lofa við sölu á vörunni.  Skartgripir þurfa einnig að hafa nafnastimpill sem segir til um hver sé framleiðandi eða innflytjandi vörunnar en hann ber ábyrgð á vörunni og að hún samræmist kröfum.
Um farandsölu gilda meðal annars lög um húsgöngu- og fjarsölu sem eiga að tryggja neytendum vernd og lágmarksréttindi.

Ábendingum vegna mögulegra brota á reglum um farandsölu má koma til Neytendastofu í gegnum rafræna Neytendastofu.

 

TIL BAKA