Fara yfir á efnisvæði

Aðgerðum Neytendastofu vegna sölu þjónustu tengdri farsímum á Netinu lokið.

16.09.2008

Neytendastofa gerði athugun í júní s.l. sem sneri að sölu þjónustu tengdri farsímum á Netinu, þ.e. hringitónum o.þ.h. Athugunin var hluti af samræmdum aðgerðum stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd og tóku öll aðildarríki Evrópusambandsins auk Íslands og Noregs þátt. Þegar sameiginlegar niðurstöður aðgerðarinnar voru kynntar kom í ljós að 80% þeirra vefsíðna sem kannaðar voru uppfylltu ekki öll skilyrði neytendalaga og þörfnuðust nánari athugunar.

Átta íslenskar vefsíður sem bjóða þjónustu tengda farsímum voru athugaðar af Neytendastofu. Aðeins ein vefsíðan var í samræmi við ákvæði laga um óréttmæta viðskiptahætti nr. 57/2005, laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu nr. 30/2002 og laga um húsgöngu- og fjarsölusamninga nr. 46/2000. Á hinum sjö vefsíðunum sem athugunin tók til skorti einhverjar upplýsingar um seljanda, s.s. nafn, heimilisfang eða kennitölu.

Í framhaldi af athuguninni sendi Neytendastofa eigendum þeirra vefsíðna sem uppfylltu ekki skilyrði laganna bréf, þar sem gerðar voru athugasemdir við vefsíðurnar og óskað eftir að upplýsingar á síðunni yrðu lagfærðar. Eigendur vefsíðnanna brugðust allir við tilmælum Neytendastofu og eru síðurnar nú í samræmi við ákvæði framangreindra laga. Ekki mun því vera þörf á frekari aðgerðum Neytendastofu vegna athugunar á sölu þjónustu tengdri farsímum á Netinu að svo stöddu.

TIL BAKA