Fara yfir á efnisvæði

Ástand verðmerkinga í matvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu

11.12.2008

Í nýliðnum nóvember mánuði gerði Neytendastofa könnun á ástandi verðmerkinga í matvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu. Farið var í 73 verslanir og valdar af handahófi 25 vörur í hverri verslun. Heildarúrtak könnunarinnar var því 1.825 vörur. Kannað var hvort vörurnar væru verðmerktar og hvort verðmerking á hillu samræmdist verði í kassa.

Niðurstöður könnunarinnar voru töluvert betri en í síðustu könnun. Af verslununum 73 voru 16 verslanir ekki með neinar athugasemdir, samanborið við 6 verslanir í síðustu könnun. Þær eru 10-11 Fjarðargötu, 10-11 Barónsstíg, 11-11 Skúlagötu, 11-11 Þverbrekku, 11-11 Laugavegi, Bónus Smáratorgi, Bónus Faxafeni, Bónus Hraunbæ, Bónus Fiskislóð, Bónus Laugavegi, Bónus Helluhrauni, Krónan Fiskislóð, Nettó Salavegi, Nóatún Reykjavíkurvegi, Samkaup-Strax Búðakór og Samkaup-Strax Hófgerði. Athugasemdir í öðrum verslunum voru mismargar en flestar voru þær 10 í verslun Hagkaupa í Spöng. Þess má geta að flestar athugasemdir í könnun Neytendastofu í ágúst sl. voru 19. Aðrar verslanir sem koma illa út úr könnun Neytendastofu eru 10-11 Lágmúla, 10-11 Borgartúni, 10-11 Álfheimum, 10-11 Langarima, 11-11 Skipholti, Bónus Tjarnarvöllum, Hagkaup Litlatúni og Nóatún Austurveri.

Heildarniðurstöður könnunarinnar eru þær að af vörunum 1.825 voru verðmerkingar í ólagi í 8% tilfella, en í könnun í ágúst voru verðmerkingar í ólagi í 16% tilvika. Til samanburðar má þess geta að árið 2006 voru verðmerkingar í 12,2% tilvika í ólagi og 5,2% árið 2005. Sjá nánar hér.

Með auknu eftirliti vonast Neytendastofa til þess að ástand verðmerkinga komist í betra horf.

Ábendingum vegna rangra eða ófullnægjandi verðmerkinga má koma til Neytendastofu í gegnum rafræna Neytendastofu á vefslóðinni rafraen.neytendastofa.is.

TIL BAKA