Fara yfir á efnisvæði

Verðmerkingar hjá líkamsræktarstöðvum

18.09.2009

Í byrjun september fóru starfsmenn Neytendastofu í líkamsræktarstöðvar á höfuðborgarsvæðinu og athuguðu ástand verðmerkinga. Farið var í 21 stöð á höfuðborgarsvæðinu í eigu 15 fyrirtækja. 

Athugað var hvort sýnilegur væri verðlisti yfir þjónustu líkamsræktarstöðvanna og hvort veitingar og aðrar söluvörur væru verðmerktar.

Af 21 líkamsræktarstöð var verðskrá ekki sýnileg hjá sex stöðvum (29%) það eru Curves, Hreyfing, Baðhúsið, Grand Spa, Árbæjarþrek sem eru í Reykjavík og Sporthúsið í Kópavogi. Þessu þurfa fyrirtækin að bæta úr hið fyrsta.  Kom fram að sjö stöðvar bjóða upp á Spa þjónustu en verðskrá var aðeins sýnileg hjá þremur stöðvum.

Áberandi var hversu illa verðmerktar veitingar voru, einnig vantaði mikið upp á verðmerkingar á söluvörum á nokkrum stöðum. 20 stöðvar voru með ýmiskonar vörur til sölu, af þeim voru 13 stöðvar (65%) með verðmerkingar í lagi eða viðunandi. Veitingar voru á boðstólum hjá 16 stöðvum en aðeins tvær stöðvar voru með verðmerkingar í lagi (13%).

Þær stöðvar sem komu einna best út úr þessari könnun á verðmerkingum voru Bootcamp Rvk., Dansrækt JSB Rvk., Heilsuakademían Rvk., Mecca Spa Kóp., Pumping Iron Rvk. og 3 stöðvar hjá World Class: Réttarhálsi 1 Rvk., Spönginni Rvk. og Lækjarhlíð 1a í Mosfellsbæ.

Yfir heildina voru 38% stöðva með verðmerkingar í lagi en hjá 62% stöðva var verðmerkingum ábótavant. Greinilegt er að eftirlit sem þetta er nauðsynlegt til að minna rekstraraðila á sjálfsagðan rétt neytenda til aðgengilegra og greinilegra verðmerkinga.

Aðilum sem Neytendastofa telur ástæðu til að gera athugasemdir við vegna ástands verðmerkinga hefur verið sent bréf frá stofnuninni og gefinn kostur á að koma verðmerkingum í viðunandi horf. Könnuninni verður fylgt eftir og ef þurfa þykir teknar ákvarðanir um viðurlög vegna slæms ástands verðmerkinga.
Neytendur geta sent Neytendastofu ábendingar vegna rangra eða ófullnægjandi verðmerkinga undir nafni með skráningu notenda eða sem nafnlausa ábendingu sjá nánri upplýsingar og leiðbeiningar á heimasíðu Neytendastofu.

TIL BAKA