Fara yfir á efnisvæði

Ástand verðmerkinga á bensínstöðvum

19.01.2009

Í desember kannaði Neytendastofa bensínstöðvar á höfuðborgarsvæðinu, Hveragerði, Selfossi, Reykjanesi, Akranesi og Borgarnesi. Skoðaðar voru 92 stöðvar og athugað hvort verðmerkingar væru í samræmi við ákvæði reglna um verðmerkingar.

Allar stöðvar voru með upplýsingar um bensínverð réttar og verð í réttri röð á verðskiltum í samræmi við reglur nr. 385/2007.

Af þeim 92 stöðvum sem voru heimsóttar bjóða 51 uppá sérvöru. Hjá þeim voru verðmerkingar kannaðar og samræmi milli hillu- og kassaverðs. Af þeim 51 verslun, voru 18 Olísstöðvar, 16 Skeljungsstöðvar og 17 N1 stöðvar. Athugaðar voru  samtals 408 vörutegundir. Af þeim voru 82 merkingar ekki í lagi. Þar af voru 52 vörur ómerktar, 18 sýndu hærra verð á kassa og 12 sýndu lægra verð á kassa, en í hillu.  Einnig var nokkuð áberandi að vörur í frysti væru ómerktar.

Hjá Skeljungi voru alls 12 % af þeim vörum sem skoðaðar voru í ólagi. Hjá Olís voru 17 % af þeim vörum sem skoðaðar voru, ekki í lagi. Og hjá N1 var ástandið verst, en alls voru 32 % allra verðmerkinga ábótavant í verslunum N1 á svæðinu.

Þær stöðvar sem voru með allar verðmerkingar í lagi í þessari könnun voru: Olís Álfheimum, Ánanaustum, Kjalarnesi, Litlu Kaffistofunni, Arnbergi Selfossi og Vatnsnesvegi Reykjanesbæ. N1 Borgartúni 39, Ægissíðu, Þjóðbraut 9 Akranesi og Hafnargötu Reykjanesbæ. Skeljungur Birkimel, Laugavegi 180, Gylfaflöt, Kleppsvegi og Skógarhlíð.

Eftirtaldar bensínstöðvar voru með helming eða meira en helming af sínum verðmerkingum í ólagi: Olís Háaleitisbraut, N1 Ártúnshöfða, Stórahjalla, Bíldshöfða, Kringlumýrarbraut, Gagnabraut, Skógarseli og Háholti Mosfellsbæ.

Með auknu eftirliti vonast Neytendastofa til þess að ástand verðmerkinga komist í betra horf.

Ábendingum vegna rangra eða ófullnægjandi verðmerkinga má koma til Neytendastofu í gegnum rafræna Neytendastofu á vefslóðinni www.rafraen.neytendastofa.is.

TIL BAKA