Fara yfir á efnisvæði

Sýningargluggar illa eða ekki verðmerktir

23.12.2010

Starfsmenn Neytendastofu skoðuðu nýverið verðmerkingar í verslunarmiðstöðvunum Kringlunni og Smáralind. Farið var í 186 verslanir.

Í Kringlunni var farið í 113 verslanir með margskonar rekstur, af þeim voru 87 með sýningarglugga.  Við skoðun á sýningargluggum kom í ljós að verðmerkingum var ábótavant eða ekki til staðar hjá 45% verslana. Í Smáralind var 51 verslun með sýningarglugga, meira en helmingur þeirra  eða 54%, voru með óverðmerktar vörur eða aðeins hluti þeirra verðmerktur. 

Algengt var að nýbúið væri að skipta um útstillingu í glugga, en einnig gleymdu margir að verðmerkja fylgihluti og föt sem ekki voru á gínum í gluggum.

Þegar skoðað var inni í verslunum Kringlunnar var verðmerkingum ábótavant hjá 25% verslana og í einni, voru engin verð á vörum fyrir aftan afgreiðsluborð. Inni í verslunum Smáralindar var ástand verðmerkinga svipað, verðmerkingum var ábótavant hjá 27% verslana sem er alls ekki nógu gott. Algengt er að það gleymist að hafa verkmerkingar á því sem er í lokuðum skápum og glerborðum sýnilegar, einnig eru sólgleraugnastandar og slíkt oft óverðmerkt.

Samanlagt fá því 96 verslanir í Kringlunni og Smáralind bréf til áminningar um að laga verðmerkingar í verslunum sínum, eða 52% þeirra verslana sem skoðaðar voru. Þetta er afturför frá skoðun sem gerð var í nóvember í fyrra, en þá voru 74% verslana með verðmerkingar í lagi. Greinilegt er að verslunareigendur verða að endurskoða verklag við verðmerkingar, sér í lagi í sýningargluggum.

Ef neytendur hafa ábendingar sem varða verðmerkingar er hægt að senda þær inn í gegnum heimasíðu Neytendastofu, www. neytendastofa.is.

TIL BAKA