Fara yfir á efnisvæði

Auglýsing Tæknivara „sími sem skilur þig“ bönnuð

29.10.2013

Neytendastofu barst kvörtun frá Skakkaturninum sem flytur inn vörur frá vörumerkinu Apple, vegna auglýsingar Tæknivara sem bar yfirskriftina „sími sem skilur þig“. Í auglýsingunni var auglýstur Samsung Galaxy S4 farsími.

Snérist kvörtunin m.a. um eplið í auglýsingunni. Komst Neytendastofa að þeirri niðurstöðu að birtingarmynd eplisins uppfyllti þau skilyrði sem ákvæði laga um viðskiptahætti og markaðssetningu gera til óbeinnar tilvísunar og sé því samanburðarauglýsing. Að mati Neytendastofu vísaði auglýsingin til vörumerkisins Apple á neikvæðan hátt og færi það ekki framhjá neytendum að verið væri að vísa til Apple keppinautar Samsung.

Einnig var deilt var um birtingarmynd íslensku sauðkindarinnar. Í kvörtun Skakkaturns kom fram að að kindin í myndbandinu ætti að tákna hinn dæmigerða notanda Apple. Neytendastofa féllst ekki á kind í auglýsingunni sé niðrandi tilvísun til Apple vara og notendur þeirra.

Í auglýsingunni birtist setningin „fáðu þér síma sem skilur þig“. Að mati Neytendastofu var auglýsingin þannig upp sett að skilja mætti að símar frá vörumerkinu Apple skildu ekki íslensku. Hvergi kom fram í auglýsingunni að verið væri sérstaklega að auglýsa nýja máltækni Samsung Galaxy S4 farsíma sem skildu talað íslenskt mál. Neytendastofa taldi auglýsingin því vera villandi og ósanngjarna gagnvart keppinaut Tæknivara. Tæknivörum var því bannað að birta auglýsinguna að viðlögðum sektum.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA