Fara yfir á efnisvæði

Neytendastofa sektar Hagkaup

28.09.2012

Á Tax Free dögum Hagkaups 10. – 14. maí s.l. voru stórir auglýsingaborðar í gluggum verslunarinnar í Skeifunni og Smáralind þar sem fram kom að þá helgina væru Tax Free dagar. Prósentuafslátturinn var hins vegar ekki tilgreindur eins og Neytendastofa hafði gert kröfu um.

Síðasta sumar bannaði Neytendastofa Hagkaup að auglýsa Tax Free afslátt án þess að fram kæmi afsláttarprósentan.  Margar ábendingar og fyrirspurnir komu frá neytendum sem töldu afsláttinn eiga að vera 25,5% en hann hefði verið 20,32%.  Neytendastofa taldi ekki ástæða til að banna Hagkaup að nota hugtakið „Tax Free“ en gerði þeim grein fyrir því að  með því að nota TAX Free hugtakið þá ætti bæði í verslunum sínum og auglýsingum að koma fram hver afslátturinn væri eða 20,32%. 

Við meðferð málsins gerði Hagkaup athugasemdir við að prósentuafslátturinn þyrfti að vera tilgreindur. Almennt væri verslunum heimilt að kynna að útsala væri í gangi þó prósentuafsláttur væri ekki tilgreindur í auglýsingum. Neytendastofa telur að það sé ekki hægt að jafna auglýsingu eða kynningu um Tax Free daga eða Tax Free helgi við auglýsingu um að hjá verslun sé útsala án þess að afsláttarprósenta sé tilgreind.  Neytendastofu telur auglýsinguna ósanngjarna og villandi gangvart neytendum ef ekki er vísað afsáttarprósentuna enda feli hugtakið Tax Free í sér ákveða prósentu.

Neytendastofa taldi Hagkaup því hafa brotið gegn ákvörðun nr. 47/2011 og lagði stofnunin 500.000 kr. stjórnvaldssekt á Hagkaup fyrir brotið.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA