Fara yfir á efnisvæði

Nýr löggildingaraðili

07.07.2009

Fréttamynd

Síðastliðinn föstudag þann 3. júlí 2009 veitti Neytendastofa Löggildingu ehf. Gullengi 112 í Reykjavík, umboð til að löggilda ósjálfvirkar vogir með 3000 kg vigtunargetu og sjálfvirkar vogir.

Þar með verður Löggilding ehf.  annar aðilinn til þess að fá slíkt umboð frá Neytendastofu. Frumherji hf. hefur annast löggildingar í umboði Neytendastofu frá árinu 1997 á vogum, rennslismælum á borð við olíu-, bensín- og mjólkurdælur og vínmálum og frá árinu 2001 á raforkumælum og vatnsmælum.

Með lögum nr. 91/2006 um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn er viðskiptaráðherra falið að fara með yfirstjórn umræddra mála en Neytendastofa fer með framkvæmd þeirra. Neytendastofu er þó heimilt að fela öðrum umboð til þess að framkvæma eftirlit með mælitækjum, sbr. 17. gr. laga nr. 91/2006, sbr. reglugerð nr. 956/2006 um starfshætti þeirra, sem annast löggildingar mælitækja í umboði Neytendastofu. Ofannefnd heimild var líka í lögum nr. 100 frá 1992 um vog og mál.

Löggilding ehf. hefur komið sér upp aðstöðu, búnaði og mæligrunnum og sótt um faggildingu til Einkaleyfastofu fyrir þessa þjónustu en framkvæmdastjóri og starfsmaður fyrirtækisins er Hrafn Hilmarsson fyrrverandi starfsmaður og tæknistjóri lögmælisviðs Frumherja frá 1997 til 2008 og þar áður vann hann á lögmælisviði Löggildingarstofu. Hún er forveri Neytendastofu og sá um löggildingar í landinu allt frá 1919 er Löggildingarstofa tók til starfa í Reykjavík.

Undanfarandi fjögur til fimm ár hafa nokkrir aðilar sýnt því áhuga að hefja löggildingar en ekki hefur orðið af því fyrr en nú.

TIL BAKA